Spurt og svarað

12. nóvember 2008

Hversu oft þurfa börn að borða?

Halló og takk fyrir góðan vef.

Ég er með eina 4ra mánaða sem ég ætla í mjög miklum rólegheitum að fara að venja af brjósti eða þannig að hún verði hætt upp úr 6 mánaða. Þó ég myndi vilja hafa hana lengur á brjósti þá bara get ég það ekki þar sem ég er með mjög mikla vefjagigt sem ég  get ekki tekið lyf við á meðan ég er með á brjósti. Ég hef þraukað í þessa undanfarna fjóra mánuði en nú er svo komið að ég er með svo mikla verki að ég hvorki sef fyrir þeim né get ég með góðu móti haldið á dóttur minni. Þó ég ætli að gera þetta allt í rólegheitunum þá langar mig til að vita hversu oft börn þurfa að borða yfir daginn. Varla getur það verið jafn oft og þau fara á brjóst? Og er einhvers staðar hægt að fá góðar upplýsingar um þetta? Ég tek það fram að dóttir mín fór að sofa alla nóttina 6 vikna og hefur því ekki drukkið á næturnar síðan þá en heldur sig samt sem áður nokkuð yfir meðal kúrfunni í þyngd og er heilsuhraust að öllu leyti.

Kærar þakkir.

 

Sæl og blessuð.

Þegar byrjað er að venja barn af brjósti er yfirleitt gefin máltíð í stað brjóstagjafar. Síðar þróast þetta nokkuð þannig að í stað brjóstagjafar kemur kannski vatnsglas eða ávöxtur. Þannig verða auðvitað ekki máltíðir í stað allra brjóstagjafanna. Það er til góður bæklingur um næringu ungbarna sem heilsugæslan er með í boði. Kíktu á hann.

Athugaðu samt betur hvort þú getur ekki tekið inn lyfin þín. Flestar vefjagigtarkonur geta tekið lyfin sín að hluta eða öllu leyti. Það eru aðeins stærstu sterakúrarnir sem stundum er „mjólkað fram hjá“. Það þýðir að mjólkað er og hent í nokkur skipti.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. nóvember 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.