Hvert á að leita með sár á vörtu.

17.05.2009

Góðan dag og takk fyrir æðislegan vef!

Málið er að strákurinn er 5 mánaða og ég er komin með sár á geirvörtuna. Það virðist ekki vera mikið sár en það er vont og virðist ekkert ætla að lagast. Ég veit að maður getur alveg farið til læknis til að láta kíkja á þetta en hvert er best að fara því læknarnir eru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir og ég vil fá gott svar ef ég fer og læt kíkja á þetta.

Með fyrirfram þökk. Kveðja Inga.

 


Sæl og blessuð Inga!

Það liggur beinast við að fara á heilsugæslustöð. Þar er fært starfsfólk sem vinnur alla daga með mæður og börn. Þar eru bæði læknar, ljósmæður og hjúkrunarfræðingar. Það er þó alltaf misjafnt hversu vant fólk er vandamálum tengdum brjóstagjöf og stundum hefur myndast ákveðin sérhæfing. Þannig er náð í þann starfsmann sem hefur mest haft með þessi vandamál að gera og hann kannski beðinn að meta ástandið. Sú stétt sem hefur sérhæft sig í vandamálum í brjóstagjöf eru þó brjóstagjafaráðgjafar. Ef þú getur náð sambandi við einn slíkan ertu vel sett. Á Landspítalanum er opin mótttaka fyrir konur með vandamál í brjóstagjöf. Þar er þó mikil örtröð og líkur á að þér yrði vísað á heilsugæslu vegna þess hve gamalt barnið er orðið.

Ég er þó sammála þér að slæmt sár svo langt inn í brjóstagjöf þarf að skoða vel af einhverjum sem hefur gott vit á brjóstagjafavandamálum.

Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. maí 2009.