Hvít doppa á geirvörtu

08.12.2010
Sæl og takk fyrir góðan vef!
Ég á 8 mánaða gamlan son sem er rosalega mikið á brjósti og vill ekki sjá pela né snuð. Undanfarna viku hef ég fengið rosalega sáran sviða í aðra geirvörtuna þegar hann drekkur og svo tók ég eftir því að það er lítil hvít doppa á geirvörtunni sem ég tel að sé að valda þessum sviða. Er þetta stífla sem veldur þessum sársauka?
Með fyrirfram þökk og von um svar. A.
 
Sæl og blessuð A!
Þetta er einkennandi lýsing á því sem kallað er mjólkurbóla. Í þínu tilfelli er hún sennilega að valda ákveðinni tegund af stíflu. Stöku sinnum leysist þetta af sjálfu sér en oft fá konur hjálp frá heilbrigðisstarfsmanni til að stinga pínulítið gat með fíngerðri nál til að opna viðkomandi útrásargang sem er lokaður. Þannig að ef málið er ekki leyst þá ráðlegg ég þér að gera það. Það er umsvifalaus lækning
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. desember 2010.