Spurt og svarað

17. janúar 2006

Hvítir vörtutoppar

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég á tæplega þriggja vikna gamlan son. Hann er mitt fyrsta barn og er eingöngu á brjósti. Brjóstagjöfin hefur gengið frekar vel, strákurinn þyngist vel og virðist vera að fá alveg nóg. Ég fékk smá stíflu í annað brjóstið fyrir tveimur dögum síðan og tók til við að leita mér upplýsinga hér á vefnum. Það sem ég fann var meðal annars fyrirspurn um herptar geirvörtur, þar var meðal annars talað um að sviðinn sem því fylgir væri í lagi, en ef vörtutopparnir hvítni eigi maður að leita sér faghjálpar. Ég hef tekið eftir því hjá mér að vörtutopparnir hvítna aðeins þegar strákurinn drekkur, hvað er þá að? Á tímabili gleypti hann mjög mikið loft í hverri gjöf en eftir að ég las mig enn betur til um réttar stellingar við brjóstagjöf þá hefur þetta minkað til muna og mér finnst hann ekki vera að taka brjóstið vitlaust. Það er sársaukalaust þegar hann sýgur, fyrir utan fyrstu mínútuna sem er alltaf svolítið sár. Hann drekkur á 3-4 tíma fresti á næturnar og þéttar yfir daginn, á u.þ.b. 1½ til 2 tíma fresti en yfirleitt ekki nema annað brjóstið í gjöf.

Kannski er ég að gera úlfalda úr mýflugu, en það er betra að vera viss.

Kveðja, Elín.

..............................................................................................................

Sæl og blessuð Elín.

Þessi hvítnun á vörtutoppum sem talað var um er ákveðið samdráttarfyrirbæri í æðunum í geirvörtunni. Þessi hvítnun er sérstök útlits. Hún kemur pínustund eftir að barnið hefur lokið gjöf, er oftast kringlótt á miðjum vörtutoppnum og húðin verður mjög hvít. Nokkrum mínútum seinna getur maður svo horft á vörtutoppinn roðna aftur. Þetta er oft kallað „æðasamdráttur“ í vörtum eða það er tengt öðru æðasamdráttarfyrirbæri sem er kallað „Raynaud´s fyrirbæri“ og getur líka verið í fingrum og tám.

Það er ákveðið hlutfall kvenna með svona samdrátt en það lýsir sér á ólíkan hátt allt frá því að þær hafa ekki einu sinni hugmynd um að þær hafi þetta upp í að það gerir brjóstagjöfina nær óbærilega vegna verkja. Mjög margar sem sjá slíka hvítnun á vörtutoppi(um) hafa engin eða mjög lítið óþægindi af því. Í þeim tilfellum er ekkert gert. Þetta versnar ekki heldur frekar að það skáni þegar á líður brjóstagjöfina.

Samkvæmt þinni lýsingu (sem getur reyndar átt við fleira en æðasamdrátt) virðist ekki um mikil einkenni að ræða þannig að ég myndi bara ráðleggja þér að taka inn lýsi reglulega á hverjum degi. Það hefur góð áhrif á smágerðar æðar eins og þær sem eru í geirvörtum. Ef þú vilt nánari skoðun á vörtunum þarftu að leita til einhverra þeirra sem kunnáttu hafa til. Með von um áframhaldandi góða brjóstagjöf þér til handa.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.