Járninntaka og brjóstagjöf

30.03.2010

Góðan daginn!

Mig langaði að forvitnast um járninntöku þegar maður er með barn á brjósti. Ég mældist með 110 í járni eftir fæðingu (7 vikur síðan ég átti). Ljósan mín sagði að ég væri frekar lág en talaði ekkert um að ég ætti að taka aukalega inn járn. Heimilislæknirinn minn vill aftur á móti að ég taki inn járntöflur 2svar á dag í hálft ár. Mér finnst það svolítið mikið. En svo var ég að heyra það að konur með barn á brjósti eigi að taka inn járn aukalega eða þar til barnið er orðið 6 mánaða og farið að fá aðra fæðu. Nú veit ég ekkert um þetta og finn mjög takmarkað um þetta á netinu. Það er tvennt sem mig langar að vita. Í 1. lagi, er nauðsynlegt fyrir mig að taka inn járntöflur eða er nóg fyrir mig að drekka bara járnmixtúru sem fæst í heilsubúðum. Í 2. lagi, er mælt með því að konur með barn á brjósti taki inn járn aukalega fyrstu 6 mánuðina?

Með fyrirfram þökk.


 

Sæl og blessuð!

Það getur skipt máli fyrir þig að vera þokkalega góð í járni. Aðaleinkenni járnskorts eru slen og slappleiki. Það eru ekki góðir eiginleikar þegar maður er að annast ungabarn. Hins vegar geturðu ekki aukið járnið í mjólkinni þinni með því að taka inn auka járn. Þannig að svarið við spurningu 1 er að þú átt að borða járnríkt fæði og taka aukalega járn sem þér hentar og hækkar þig í járni. Við spurningu 2 er svarið nei, almennt og yfirhöfuð ekki. Nema um járnskort sé að ræða til að auka almennt heilbrigði.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. Mars 2010.