Jurtalyf fyrir brjóstabörn

20.09.2009

Sælar!

Mig langar að heyra hvað ykkur finnst um að gefa ungu brjóstabarni Skírni dropa (úr Jurtaapótekinu) við miklum loftsperringi og óþægindum. Droparnir innihalda kamillu (róandi), fennell (vindlosandi) og piparmyntu (verkjastillandi). Gæti þetta haft áhrif á ónæmiskerfið til lengri tíma litið?

Með kveðju og þökk fyrir góðan vef.

 


Sæl og blessuð!

Ég álít að maður eigi að forðast að setja svo mikið sem einn dropa af einhverju öðru en brjóstamjólk ofan í ungbörn fram að 6 mánaða aldri. Margt bendir til að það sé aðeins til óþurftar og þá sérstaklega fyrir ónæmiskerfið. Þetta er því mjög skiljanleg spurning og svarið verður að vera já, það getur haft áhrif. Hins vegar er verið að gefa börnum ýmislegt á fyrstu mánuðunum stundum vegna nauðsynar og stundum að óþarfa. Þá verður fólk að eiga við sig sjálft hvað það vill gera. Það er mjög skiljanlegt ef barn er óvært að foreldrar vilji reyna ýmislegt til að laga ástandið. Ég tel að fólk eigi að fara eftir eigin sannfæringu þegar það hefur kynnt sér allar hliðar málsins.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. september 2009.