Kaffi og brjóstagjöf

11.11.2008

Sælar ljósmæður og takk fyrir yndislega síðu.

Mér finnst alveg ofboðslega gott að fá mér einn og einn kaffibolla yfir daginn en hef ekki þorað að drekka kaffi eftir að ég átti (fyrir 3 vikum). Núna er löngun mín í kaffi  orðin mikil en ég veit ekki hvort kaffið geti farið eitthvað í barnið í gegnum brjóstamjólkina, eins og er talað um með gos (að loftið úr gosinu fari í gegnum brjóstamjólk og barnið verði fullt af lofti).

Kær kveðja.

 

 

Sæl og blessuð!

Koffín eins og flest efni fara að litlu leyti yfir í móðurmjólk. Það er þó talið í góðu lagi að drekka 2-3 bolla af kaffi yfir daginn. Að sjálfsögðu skiptir máli hversu stórir bollarnir eru og hversu sterkt kaffið er (hve mikið koffín). Þá má ætla að 2 meðalbollastærð af góðu kaffi séu í lagi en þeir sem drekka sull megi fá sér 3 bolla. Það breytir engu um koffíninnihald þótt mjólk sé bætt í kaffið eins og sumir halda. Það þarf töluvert mikla og stöðuga kaffidrykkju til að áhrif geti hugsanlega verið merkjanleg hjá barni. En síðan ber þess að geta að börn eru misviðkvæm fyrir svona efnum.

Varðandi seinni hluta bréfsins þá er líffræðilega ómögulegt að loftbólur úr gosi komist í móðurmjólk eða yfir til barnsins. Þannig að þú mátt drekka allt það gos sem þér sýnist.

Gangi þér vel.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2008.