Spurt og svarað

11. nóvember 2005

Kaffi og brjóstagjöf

Sæl!

Stelpan mín tók upp á því um daginn að vakna á nóttunni eða seint um kvöld og vaka í 1-2 tíma. Hún byrjar á  því að öskra í u.þ.b. 1/2 tíma og svo róast hún og fer bara að leika sér og er svo andvaka. Ég er nýbyrjuð að vinna aftur, hún er að verða 9 mánaða og ég fór að drekka kaffi í vinnunni aftur. Hætti þegar ég varð ólétt og er sem sagt byrjuð aftur en þetta eru bara 2-3 bollar á dag í mesta lagi. Spurningin er hvort þetta geti haft áhrif á hana? Hún fær brjóst á morgnana áður en ég fer í vinnu og svo á kvöldin fyrir svefninn um 8 leytið.

.......................................................................

Sæl og blessuð kaffikona.

Því miður vantar mikið af upplýsingum í bréfið þitt. Ég reyni þó að svara miðað við þær upplýsingar sem koma fram og kannski einhverjar sem ég verð að giska á. Lykilorðin í bréfinu þínu eru „Ég er nýbyrjuð að vinna“. Mörg börn bregðast mjög harkalega við því þegar móðir þeirra breytir einhverju í háttum sínum. Ef þú ert í 50% vinnu eða meira þá eru einkennin sem þú ert að lýsa mjög eðlileg. Vaknað upp á óeðlilegum tíma til að ganga úr skugga um að mamma sé nú örugglega ekki farin aftur. Öskrað til að vita hvaða þjónustu maður fær og vakað þar til 100% vissa er fyrir að allt sé með eðlilegum hætti á heimilinu. Þú getur hjálpað barninu yfir þessi tímamót með auka keleríistímum, aukaknúsum, mikilli samveru og athygli. Þetta er bara tímabundið ástand. Svo fer allt í eðlilegt horf aftur þegar barnið er búið að aðlagast breytingunni. Þú mátt drekka þitt kaffi án nokkurs samviskubits og njóttu vel.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.