Spurt og svarað

02. nóvember 2004

Kaffi og brjóstagjöf

Takk fyrir frábæra síðu!

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það sé í lagi að drekka kaffi með barn á brjósti? Hefur það einhver áhrif á mjólkina?

.................................................................

Sæl og blessuð.

Margar konur velta því fyrir sér hvort í lagi sé að drekka kaffi á meðan barn er á brjósti. Allt er best í hófi gildir hér eins og oftast.

Virka efnið í kaffi er koffín sem fer yfir í brjóstamjólk í talsverðu mæli. Það þarf þó að vera verulega duglegur kaffineytandi til að magnið í mjólkinni verði mikið fyrir barnið. Kaffi endrum og sinnum gerir ekkert til en kaffineysla á hverjum degi myndi maður vilja takmarka við 1-2 bolla. Það eru 100-150 mg. af koffíni í meðalkaffibolla. Fer eftir styrk blöndunnar og uppruna kaffisins. Svo er mikilvægt að passa upp á að bæta ekki við koffíni annars staðar frá eins og úr te, kóladrykkjum(koffínmagn skráð á umbúðir) eða lyfjum. Mörg lyf sem seld eru lyfseðilslaust innihalda koffín. Einstaka tilfelli óværðar og pirrings hjá ungbörnum ásamt svefnleysi hafa verið rakin til óhóflegrar kaffineyslu móður. Ef grunur um slíkt vaknar er rétt að draga úr kaffineyslu í 1-2 vikur og sjá hvort það hjálpar.

Vona að þetta svari því sem þú varst að velta fyrir þér.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. nóvember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.