Spurt og svarað

13. júlí 2006

Kalktöflur og brjóstagjöf

Hæ, hæ!

Ég á eina 3ja mánaða stelpu sem er eingöngu á brjósti. Ég las um daginn að kalkþörf kvenna eykst sem eru með barn á brjósti. Þar sem ég neyti mjólkurvara í mjög litlum mæli, þá ákvað ég að fara að taka inn kalktöflur, tvær á dag. Ég fór svo að pæla að kannski sé ég að fá of mikið kalk þá daga sem ég neyti einhverra mjólkurvara. Spurning mín er því: Er í lagi að ég sé að taka aukalega inn kalk? Af hverju er konum ekki bent á að passa upp á kalkneyslu sína, sérstaklega þær eru með barn á brjósti? Ef konan fær ekki nógu mikið kalk úr fæðunni, þá fer á endanum að ganga á kalkbirgðir beinanna, ekki satt? Ég veit að margar nútíma konur neyta lítið af mjólkurvörum.

Með von um svör.Sæl og blessuð.

Það er mikið rétt hjá þér að kalkþörf kvenna eykst þegar þær eru með barn á brjósti. En það eykst líka þörfin fyrir mörg önnur efni. Það er í raun engin ástæða til að taka bara eitt efni út. Það er því alltaf reynt að leggja áherslu á það við mjólkandi mæður að þær borði fjölbreytt og hollt fæði. Ef þær passa samsetningu fæðis síns þokkalega vel þá fá þær öll þau efni sem þarf í mjólkina án þess að það bitni á þeim. Ef þær telja hins vegar að í fæðið vanti eitthvað ákveðið er mjög gott að þær grípi inn í eins og þú gerðir og bæti sér það upp á annan hátt. Það er ekki gott fyrir mig að segja hversu margar töflur þú þarft á dag því þú gleymdir að segja mér hversu mikið kalk er í þeim. Það ætti að nægja að taka inn lágmarksskammt því þú verður að athuga að það er kalk í ýmsu öðru en mjólkurvörum t.d. káli.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.