Keisari og brjóstagjöf

31.01.2006

Ég eignaðist litla stúlku fyrir 4 vikum með keisara vegna sitjanda. Mig langar til að vita hversu lengi er eðlilegt að það blædi frá móðurinni eftir svona aðgerð. Ég er enn med bindi, þar sem það koma svona blettablæðingar....er þetta eðlilegt?

Svo langar mig til að vita af hverju maður má ekki aðhafast neitt eins og innkaup, þvo þvott, ryksuga og svoleiðis í 6-8 vikur (langur tími finnst mér).
Er þá hætta á samgróningum? Ég hef nú séð um ad þvo þvottinn á heimilinu (ca. 10 dögum eftir adgerd) og hef þá bara passað ad þvo ekki mikid í einu. Þvotturinn er sem sagt ekki Þungur. Svo hef ég líka, þegar ég hef farið út med barnavagninn, keypt svolítið inn, en þá líka passad að vera ekki að halda á neinu svakalega þungu.
Ég fékk að vita þegar ég fór heim af spítalanum, að ég mætti halda á þyngd sem svaraði til dóttur minnar og burðarúmsins......

Ég var svona að pæla, hvort ég sé nú kannski bara búin að "eyðileggja" innyflin við að vera að kaupa inn og þvo þvottinn?

Mig langar að lokum til að heyra, hvernig veit madur að brjóstið er tómt
(vid brjóstagjöf)? Mér finnst ég nú alltaf geta kreist smá út, líka þegar hún virdist vera farin að neita brjóstinu en vill samt hitt brjóstið!

Kveðja Keisaramóðir

.................................

Sæl og blessuð Keisaramóðir.

Það er alveg eðlilegt að það blæði í 4-6 vikur eftir keisara. Það er oft ekki mikið og það breytist líka þegar á líður og verður brúnleitt og slímkennt. Ég hef ekki hugmynd um af hverju þér var sagt að gera ekkert í 6-8 vikur og get ekki ímyndað mér hvar í heiminum þú ert stödd. Venjuleg fyrirmæli eru að konur eigi að gera það sem þær treysta sér til. Það er náttúrlega mjög einstaklingsbundið í hve góðu formi konur eru fyrir skurðinn en maður hefur heyrt um konur sem eru farnar að lifa algjörlega eðlilegu lífi eftir 3 vikur og jafnvel farnar að stunda leikfimi og djöflast út og suður.Það er engin hætta á að þú skemmir eitt eða neitt ef þú passar þig að vera innan sársaukamarka. Þér er óhætt að gera nákvæmlega það sem þér sýnist.
      °
Varðandi brjóstagjöfina þá getur þú aldrei vitað hvort brjóstið er "tómt" aðallega vegna þess að það er aldrei "tómt". Brjóst er framleiðslueining sem framleiðir svo lengi sem það er sogið. Það er ekki fyrr en nokkurn tíma eftir að barn er hætt að sjúga sem verulega dregur úr framleiðslunni. Þannig að þú gætir kreist í marga klukkutíma og það myndi alltaf koma mjólk. Þess vegna er mikilvægt að konur séu ekki að mjólka brjóst sín eftir gjafir. Barnið á að stjórna framleiðslunni og brjóstið að framleiða samkvæmt þörfum þess.
            
Með von um gott gengi áfram.          
 
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
31.01.2006