Spurt og svarað

03. júní 2004

Klárar ekki móðurmjólk úr pelanum

Barnið mitt tekur ekki brjóst og ég hef mjólkað mig og gefið móðurmjólkina með pela (hef geymt í kæli).  Núna mjólka ég orðið aðeins meira en barnið drekkur - sem sagt barnið klárar ekki úr pelanum.  Á ég að fleygja mjólkinni eða má ég setja hana í kæli og hita aftur?  Var að spá í, ef að
ég fleygi mjólkinni getur þá ekki verið að þessir fituríku dropar skili sér ekki til barnsins?

.........................................................

Kæra móðir!

Það er mjög gott hjá þér fyrst barnið getur ekki tekið brjóst að þú skulir mjólka þig og geta þannig gefið því bestu næringu sem til er.  En það getur verið erfitt að stilla mjólkurframleiðsluna þannig að hún passi fyrir barnið.  Það er aðallega gert með því að fjölga eða fækka mjöltum. Ef þú ert bara að mjólka aðeins meira en barnið drekkur þá ertu betur sett en ef þú værir að mjólka of lítið eða allt of mikið.

Þú skalt reyna að forðast eftir mætti að fleygja móðurmjólkinni. Hún er alltof dýrmæt til þess. Ég mæli með því að þú skiptir henni í minni skammta og hitir aðeins lítinn skammt í einu. Ef barnið vill meira má hita annan skammt og svo annan o.s.frv.  Með þessu móti verðu „afgangurinn” minni. Honum verður þú að henda fljótlega (ef barn vill drekka fljótt aftur máttu nota hana annars ekki). Ef heill skammtur er ósnertur skaltu frysta hann. Móðurmjólk geymist mjög vel frosin.  Þú þarft ekki að vera að spá í fituríku dropana.  Mjólkuð mjólk er einsleit  þ.e. fyrst við mjaltir kemur formjólk en eftir 5-10 mínútur fer feitari mjólk að koma. Hún blandast formjólkinni sem fyrir er í pelanum. Við hitun er þess gætt að hreyfa pelann þannig að mjólkin blandist vel. Fituríku droparnir koma því ekki í lok gjafar eins og hjá barni á brjósti heldur jafnt og þétt og dreifðari.

Bestu kveðjur,                                                                                  
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 3. júní 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.