Kláði og brjóstagjöf

20.10.2005

Góðan dag og takk fyrir frábæra síðu!

Mig langar að forvitnast hvort það eru einhver tengsl á milli kláða og brjóstagjafar? Mig klæjar svo mikið og víða, á fótunum, höndunum og já bara allsstaðar og finnst ég bara hafa fundið fyrir því undanfarnar vikur. Stundum fæ ég svona kláðabólur sem hverfa reyndar eftir nokkrar mínútur. Ég er með eina 1½ mánaða á brjósti.

Kær kveðja.

.............................................................


Sæl!

Nei, ég hef ekki getað fundið neitt sem bendir til tengsla milli brjóstagjafar og kláða. Þetta tvennt fer yfirleitt aðeins saman þegar um sveppasýkingu á geirvörtum er að ræða. Í þeim tilfellum er kláðinn bundinn við vörturnar eða brjóstin en er ekki út um allt. Þannig að ég er hrædd um að þú verðir að leita annarra skýringa á orsökum kláðans.

Með von um að þú finnir svör,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. október 2005.