Spurt og svarað

18. apríl 2006

Klemmir geirvörtuna...

Sæl!

Ég á í smá vanda með brjóstagjöfina. Dóttir mín hefur alltaf viljað færa sig framar á vörtuna og veldur mér þannig talsverðum óþægindum. Hún klemmir geirvörtuna sem er svo öll marin fremst. Ég hef leitað ráðgjafar áður og fékk þá að vita að ég er þrátt fyrir þetta að gera allt rétt. Var ráðlagt að losa um sogið og reyna að leggja hana á aftur, passa uppá stellingar og halda henni þétt að brjóstinu og að hún taki vörtuna vel. Þrátt fyrir að vera búin að eyða talsverðum tíma og þolinmæði í þetta (fleiri vikur), þá er þetta ekkert að lagast. Þvert á móti eykst marið og ég er hrædd um að ég fá sár áður en langt um líður, þar sem hún sýgur mjög fast. Næturgjafirnar eru skárri, en þá þarf hún líka minna að hafa fyrir hlutunum, þar sem nóg er af mjólkinni og hún sjálf vel slök. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort losunarviðbragðið geti verið eitthvað seinkað hjá mér, þar sem hún tekur óværðarköst við brjóstið daginn. Hún klárar fljótt það sem nær að safnast í brjóstin milli gjafa og svo virðist það oft taka „of langan tíma“, þar til ég heyri hana kyngja og verða sátta. Ég þarf þá að eyða talsverðum tíma í að róa hana svo hægt sé að leggja á aftur og einnig hef ég reynt að pressa brjóstið á meðan hún drekkur og skipta svo yfir á hitt þótt lítill sem enginn tími hafi farið í fyrra brjóstið. Allt til að reyna að finna einhverja lausn á því hvað plagar hana. Ég geri ráð fyrir að það sé erfiðara fyrir hana að ná einhverju ef hún klemmir vörtuna svona, en hún er samt að taka þessi óværðarköst þótt vartan komi óklemmd útúr henni. Sú stutta er að þyngjast hjá mér þótt mætti vera meira, en mér finnst eins og hún sé ekki alveg hamingjusöm með þetta. Hún drekkur a.m.k. á 3ja tíma fresti og oftar, líka á nóttunni. Er sennilega að taka um 10 gjafir á sólarhring þrátt fyrir að vera orðin 3½ mánaðar gömul. Gæti það haft eitthvað að segja að fara að byrja að gefa henni graut? Hún yrði e.t.v. sáttari og hvíldist betur?

Ég er orðin alveg þurrausin með ráð finnst mér, en vil gera allt til að halda þetta út til a.m.k. 6 mánaða aldurs og helst lengur ef hægt er. Eigið þið einhver ráð handa mér?

Með þökk, EH.

 


 

 
Sæl og blessuð EH.

Ég sé að þetta er búið að vera svolítið erfitt hjá þér og vona að ég geti eitthvað hjálpað.

Mér sýnist aðalvandamálið vera þessi klemma hjá barninu. Ef hún er að klemma vörtuna orðin þetta gömul þá er það slæmt. Það er hins vegar aðeins ein skýring á því og það er rangt grip. Og af hverju er hún að grípa vitlaust? Það er spurningin. Þú segist leggja vörtuna rétt uppí hana og styðja vel við hana í gjöfunum. Ég verð að treysta því þótt ég sé aldrei fullsannfærð nema ég sjái það með eigin augum. En það er bara ég. Þá er bara tvennt eftir.

Annað er sogvilla. Það þýðir að hún fái svo mikið snuð eða pelatúttu og hafi fengið gegnum tíðina að hún sjúgi alltaf snuðsogi. Það er sjaldgæft hjá svo gömlu barni að ruglast svo lengi á sogtegundum. Þannig að mér finnst það ólíkleg skýring.

Að lokum getur skýringin hugsanlega verið að það sem þér sýnist vera mar sé blánun á vörtum af völdum æðasamdráttar. Það hefur ekkert með sog barnsins að gera. Sogið getur verið fullkomlega rétt en í kjölfar gjafar verður þessi blánun og oftast líka hvítnun á vörtunni. Það ætti ekki að valda barninu vandræðum en getur valdið sársauka hjá þér.

Það að næturgjafirnar séu betri segir ekkert nema að vandi sé til staðar. Við nær öll brjóstavandamál eru næturgjafir betri. Það hefur ekkert með mjólkurmagn að gera. Það er ekki um mjólkurmagnsvandamál að ræða ef barn sýgur nógu oft, lengi og dafnar og það er í lagi hjá þér.

Losunarviðbragðið tekur alltaf svipaðan tíma hjá sömu konunni. Því getur ekki seinkað (nema í miklu stressi).Börn venjast því frá byrjun að bíða sinn ákveðna tíma. Þau fara ekki að láta það pirra sig einhvern tíma seinna. Nema þau fái oft pela (það kemur ekki fram að þetta barn fái neinn pela). Og mjólkin safnast ekki í brjóstin milli gjafa. Brjóstin eru miklu frekar í biðstöðu milli gjafa.

Óværðarköstin við brjóstið má skrifa svolítið á þroska barnsins. Börn eldri en 3ja mánaða fara oft að vesenast mikið á meðan gjöf stendur. Þau eru gjarnan á fleygiferð og reyna að gera marga hluti í einu. Þau sleppa oftar brjóstinu og grípa en áður og gjafirnar geta styst mikið. Sumar gjafir standa kannski bara í 2-4 mín.Þau þurfa ekki meira. Þannig að það sem þú getur gert er t.d. þetta.

Ekki hugsa um grautargjöf þar til í fyrsta lagi þegar barnið verður 6 mánaða.

Láttu athuga vörturnar til að fá skýringu á marinu.

Ef þú ert sannfærð um að barnið sé óþolinmótt eftir mjólkinni geturðu annars vegar lagt fyrr á brjóst þ.e.a.s. áður en hún verður mjög svöng eða hins vegar að handmjólka brjóstið þar til byrjar að flæða áður en þú leggur á brjóstið. Og það sem er allra mikilvægast. Reyndu að nota slökun í gjöfunum til að þetta gangi betur.    

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.