Spurt og svarað

08. september 2006

Kók og brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir fróðlegan vef!

Mig langar að spyrja nokkurra spurninga í sambandi við brjóstagjöf. Ég hef heyrt að kaffidrykkja móður sé loftmyndandi hjá litlum krílum sem eru á brjósti og langar mig þá að vita hvort það sé koffínið sem veldur því og þá hvort kók valdi líka loftmyndun. Hvað líður langur tími frá því að maður borðar eitthvað og þar til það fer út í mjólkina? Ef ég borða eitthvað sem fer illa í dóttur mína, hversu lengi er það að fara aftur úr mjólkinni? Með fyrirfram þökk.

Kveðja, Berglind.


Sæl og blessuð Berglind.

Það er hugsanlegt að þú hafir ruglað saman kaffi og kóki. Ég held ekki að neinum hafi dottið í hug að kaffi sé loftmyndandi en stundum heyrist gamall misskilningur um að kók sé loftmyndandi. Það eru sennilega loftbólurnar í kókinu sem hefur komið þeirri hugmynd af stað en að sjálfsögðu komast loftbólur ekki úr meltingarfærum yfir í blóð og náttúrulega alls ekki frá blóði yfir í mjólk. Koffín sem bæði er í kaffi og kóki hefur hins vegar áhrif sé þess neytt í óhófi. Það þarf reyndar bæði mikla og langa neyslu til og áhrifin eru fyrst og fremst aukin spenna og pirringur ásamt svefnleysi. Það líður mislangur tími frá neyslu þar til niðurbrotnu einingarnar skila sér til mjólkurinnar eftir því hvaða næringarefni er um að ræða. Þau eru brotin niður á misjöfnum stöðum í meltingarveginum og það skiptir líka máli á hvaða formi þeirra er neytt. Hvítur sykur er t.d. mjög einföld gerð kolvetna sem fer nær umsvifalaust inn í blóðið á meðan hvítkál er með mikilli sterkju og þarf langa meltingu til að losa sín grunnefni. Við „brúnna“ frá blóði yfir í mjólk fer líka fram ákveðið val. Þar er ekki hvaða efni sem er hleypt í gegn á meðan önnur eru pikkuð sérstaklega út og „drifin“ í gegn. Ég er ekki alveg viss um hvað þú átt við með síðustu spurningunni. Aðeins mjög óstöðug og auðflytjanleg efni fara aftur út úr mjólkinni. Það á einkum við um lyf en ekki næringarefni. Vona að eitthvað hafi skýrst.  

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.