Spurt og svarað

13. janúar 2013

Kókosolía á geirvörtur

Komiði sælar!
Ég á von á mínu þriðja barni og hef hugsað mér að hafa það á brjósti líkt og hin. Báðar hinar brjóstagjafirnar gengu hins vegar illa. Ég fékk sár, sýkingar (bæði bakteríu og sveppa) og var greind með Raynauds, sem dæmi. Allar konur sem ég þekki og hafa hafa átt velgengni að fagna í brjóstagjöfinni hafa mælt með Lansinoh og það hef ég alltaf reynt að nota. En það er stíft og sárt að bera það á sig jafnvel þó maður mýki það milli fingranna. Eins og margar konur með viðvæmar vörtur hef ég aldrei fílað þetta krem. Mig langar svo að reyna annað krem og hefur dottið í hug lífræn kókosolía. En ég velti fyrir mér hvort nýfætt barn megi fá hana í sig? Ég er auðvitað ekki að tala um að bera það á mig fyrir gjöf, heldur á eftir. Þá er kannski lítið eftir á húðinni hvort eð er?


Sæl og blessuð!
Það er vonandi að í þetta skipti gangi brjóstagjöfin betur hjá þér. Það er aldrei mælt með að bera krem á vörtur í byrjun brjóstagjafar. Rannsóknir sýna engan árangur af þeim og sumir vilja meina að þau stuðli beinlínis að vandræðum. Það er oft erfitt að ná að setja vörtuna nógu langt inn í munn barnsins ef hún er hál eftir kremnotkun. Ég mæli með því að þú leggir áherslu á að læra góð handtök við að láta barn grípa vörtuna rétt og notir alltaf vatn til að bleyta vörtuna fyrir gjöf. Ég hef heyrt konur tala um að þær hafi prófað kókosolíu og líka ólífuolíu með misjöfnum árangri. Þá meina ég að sumum fannst það hjálpa og öðrum ekki. Ef þær voru í vandræðum í brjóstagjöfinni var þó ekkert sem jafnaðist á við að læra rétt handtök við gripið. Ég held að það gæti líka hjálpað þér að vera fljót að fá hjálp ef vandamál brjóstagjafar fara að láta á sér kræla.
Með bestu ósk um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. janúar 2013.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.