Kolvetnislaust fæði og brjóstagjöf

21.04.2008

Sæl!

Ég er með 2 mánaða gamalt barn á brjósti og er langt yfir kjörþyngd. Ég var að hugsa um að taka allan sykur og kolvetni úr fæðunni, sérstaklega vegna þess að ég er með mikil ristilsvandamál. Er þetta á einhvern hátt óhollt fyrir barnið? Tek það fram að ég  innbyrði allt kjöt, fisk, grænmeti og ávexti þess í stað.

Með von um skjót svör og þakkir fyrir góðan vef:)


Sæl og blessuð.

Það er ágæt regla að byrja ekki neitt sem heitir megrun fyrstu 3 mánuði brjóstagjafar. Þá eru að verða breytingar á fituforða líkamans sem eru hagstæðar fyrir seinni tíma. Eftir það er í lagi að breyta fæði sínu og mér virðist þú ætla að velja ágæta leið. Þú passar bara að fá fæði úr öllum fæðuflokkum á hverjum degi. Það sem þú telur upp getur verið ágætis byrjun. 

Bestu óskir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. apríl 2008.