Kristall+ og brjóstagjöf.

11.10.2007

Sælar.

Stelpan mín er að verða 4ra mánaða og ég er með hana eingöngu á brjósti. Málið er að ég er alveg veik í Kristal+ og er að drekka svona 1-3 hálfs líters flöskur á dag. Ég drekk náttúrulega vatn og svona líka. En nú er náttúrulega eitthvað af B-vítamínum í Kristalnum og ég er að spá í hvort að þetta sé í lagi út af brjóstagjöfinni. Svo er ég með alveg hrikalegt hárlos þessa dagana og hárið á mér hefur þynnst agalega, liggur við komin með há kollvik. Er eitthvað hægt að gera í því? Er að taka Lýsi og borða nokkuð fjölbreytt held ég en hef ekki verið að taka nein önnur vítamín. Gæti fjölvítamín eitthvað hjálpað? Og hvað með að taka þau og drekka Kristal+?
Vonandi er ég ekki komin í hring en maður er alltaf að hafa áhyggjur af því að maður sé að gera eitthvað sem að kemur sér illa fyrir krílin.

Kveðja, Stelpumamman.


Sæl og blessuð stelpumamman.

Jú, það er í góðu lagi að drekka Kristal plús. Umfram B-vítamíni pissar þú bara út. Varðandi hárlosið þá hef ég komið að þessu áður. Þetta er eðlilegt tap líkamans á hári sem var haldið í á meðgöngunni. Þetta hár verður að fara og það er ósköp lítið sem þú getur gert í því. Það eru til ýmis bætiefni sem eru talin hafa góð áhrif á hárvöxt og það er sjálfsagt fyrir þig að prófa þau. En þú getur ekki búist við einhverjum kraftaverkum. Ef þú ert á góðu fæði þá hættir hárlosið að vera áberandi eftir nokkrar vikur eða mánuði.

Gangi þér vel.  

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2007.