Spurt og svarað

11. janúar 2012

Kvíðavænleg brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

 Nú geng ég með annað barnið mitt og er rétt rúmlega hálfnuð, en aðeins 15 mánuðir verða á milli barnanna ef allt gengur vel. Brjóstagjöfin gekk mjög illa með fyrra barnið. Ég mjólkaði vel og barnið þyngdist vel en ég var með endalaus sár og sprungur sem gréru ekki. Ég fór til brjóstagjafaráðgjafa sem ráðlagði mér vel og hitti margar ljósmæður en samt virtust sárin ekki ætla að gróa. Svona gekk þetta í um 6 mánuði og var grátið í hverri gjöf fram að því. Hatturinn var prófaður til að byrja með og átti hann stóran hlut í því að sárin mynduðust og svo pumpaði ég mig líka á tímabili. Eftir að barnið fór að fá fasta fæðu minnkaði brjóstagjöfin og sársaukinn um leið en barnið hætti endanlega á brjósti rúmlega 9 mánaða. Sárin gréru og tárin þornuðu. Það sem mig langar að vita er það hvernig ég get undirbúið næstu brjóstagjöf? Ég vil endilega reyna aftur og vona að ég geti átt aðeins notalegri stundir. Er möguleiki á því að það hafi getað leynst sýking eða sveppur án þess að það fyndist allan þennan tíma? Ef svo er, getur slík sýking verið enn til staðar þrátt fyrir að barnið sé hætt á brjósti? Nú ef það er möguleiki, hvernig er best að bregðast við þessu til þess að auka líkur á farsælli brjóstagjöf? Ég hef mjög viðkvæma húð. Er það kannski vandamálið? Og er hægt að bregðast við því? Með von um svör.

Kveðja, H.


 

Sæl og blessuð H!

Mér þykir leitt að heyra að brjóstagjöfin hafi verið svo erfið reynsla. Þú átt ekki að sætta þig við slíkan sársauka aftur. Sár á vörtum er yfirleitt hægt að laga á fáum dögum og þegar til aðgerða er gripið á bati að byrja næsta eða þarnæsta dag. Það er reyndar rétt hjá þér að maður getur lent í lengri vandamálum ef hattur kemur til skjalanna en núna veist þú betur varðandi hann. Það er mögulegt að sýking hafi verið langvarandi og það veldur sársauka en þá átti að taka betur á því. En það er ekki mögulegt að sýking sé enn til staðar og ekki líklegt að húðgerð skipti neinu máli. Ég ráðlegg þér að fara í viðtal til brjóstagjafaráðgjafa á meðgöngunni og fara vel yfir handtök og grip. Þú átt líka að fá skoðun á vörtum um leið. Svo gæti verið gott að hafa vísan stuðning við brjóstagjöfina að fæðingu lokinni.

Með bestu óskum um gott gengi.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. janúar 2012.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.