Kvíði brjóstagjöfinni

16.02.2006

Sælar!

Nú er ég gengin rúmar 38 vikur með mitt annað barn svo þetta fer að styttast, sem betur fer. En ég hef fundið fyrir svakalega mikilli vanlíðan undanfarið sem er kannski svolítið kjánalegt því nú er svo stutt eftir hjá mér. Ég er mjög slöpp líkamlega, með ýmsa verki: hausverk, mjaðmaverki, rófubeinsverki, mjóbaksverki og svona gæti ég haldið lengi áfram. Auk þess er ég með bjúg og er búin að þjást af miklu svefnleysi. Ég reyndar er alveg vön þessu svefnleysi þar sem ég var á þunglyndis og svefnlyfjum áður en ég varð ólétt, en það er önnur saga. En ég var að spá hvort það sé eðlilegt að líða svona, ætti ég ekki frekar að vera spennt fyrir að fá barnið loksins í fangið og allt það? Æ-i svo er annað mál að angra mig líka, en ég er með svo mikinn kvíða, ég kvíði reyndar nákvæmlega ekkert fyrir fæðingunni sjálfri, kannski því ég á barn fyrir og veit svona nokkurn veginn hvernig þetta gengur allt fyrir sig. En aftur á móti þá er ég að drepast úr kvíða yfir að þurfa að setja barnið á brjóst og ég kvíði líka svo fyrir því hvernig eldra barnið tekur öllum breytingunum sem fylgja nýju barni! Brjóstagjöfin gekk nefnilega svo hræðilega illa seinast að það endaði með því að ég gafst upp og ég notaði brjóstapumpu í rétt um 4 mánuði. Og þessi martröð sem brjóstagjöfin var síðast fylgir mér eins og skugginn og mig hreinlega langar bara ekki neitt til að hafa þetta barn á brjósti, er hægt að biðja um að barnið verði ekki á brjósti? Ég veit þetta hljómar kannski asnalega en ég bara treysti mér ekki aftur út í þetta, mér leið líka svo endalaust illa yfir að vera misheppnuð mamma sem gat ekki haft barn á brjósti og ég bara get ekki hugsað mér að ganga í gegnum þetta allt saman aftur! Er alveg eðlilegt að vera með svona mikla vanlíðan og kvíða svona rétt í lokin?

..........................................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er mjög erfitt að segja til um hvað er eðlilegt og hvað ekki þegar kemur að kvíða og öðrum andlegum þáttum. Það er auðvitað eðlilegt að kvíði geri vart við sig og líkamleg vanlíðan er jú algengust á síðustu vikunum fyrir fæðingu. En kvíði og depurð getur farið út fyrir eðlileg mörk og ef þú hefur upplifað þunglyndi áður geturðu kannski miðað við það. Það er mikilvægt að fá hjálp sem fyrst ef andlega heilsan er að gefa sig áður en hún verður mjög slæm. Varðandi brjóstagjöfina finnst mér mikilvægt að þú fáir viðtal við fagmann til gera upp síðustu reynslu, þ.e.a.s. fara yfir ferlið, hvað fór úrskeiðis og hvað hefði verið hægt að gera. Svo má fara yfir hvort hægt er að koma í veg fyrir að það sama gerist aftur. Ef þér óar samt mjög við brjóstagjöfinni og vilt ákveða fyrirfram að reyna hana ekki þá er það þitt val. Þá læturðu ljósmóðurina þína vita þannig að hún geti sett þær upplýsingar á áberandi stað í mæðraskrána þína. Það á að koma í veg fyrir að í fæðingunni og á eftir sé sífellt verið að spyrja þig sömu spurninganna um brjóstagjöf. Þú þarft ekki að gefa upp neina ástæðu frekar en þú vilt. Það sem skiptir máli er að þú vitir allt um þá þætti brjóstagjafar sem koma þér við og sért búin að taka ákvörðun með allar upplýsingar í farteskinu.

Vona að ég hafi ekki flækt málin frekar,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. febrúar 2006.