Spurt og svarað

07. júlí 2010

Kvíði fyrir brjóstagjöf

Sælar!

Mig langar að forvitnast í sambandi við brjóstagjöf. Nú er ég ólétt af mínu þriðja barni. Brjóstagjöf með fyrsta barn gekk eins og í sögu og var hún á brjósti í 12 mánuði. Brjóstagjöf með barni tvö gekk hræðilega. Ég mjólkaði illa, barnið drakk lítið og þyngdist því lítið. Síðan greindist hún með mjólkurofnæmi þriggja mánaða og þá lauk öllu. Ég gafst upp á að reyna fara breyta matarræðinu plús að reyna koma brjóstagjöfinni í eðlilegt horf. Eftir fyrsta barn lét ég stækka á mér brjóstin og hef pælt í því hvort það sé ástæðan fyrir hversu illa brjóstagjöfin gekk síðast. Núna er ég gengin 28 vikur og strax farin að kvíða fyrir brjóstagjöfinni af því að núna langar mig svo mikið að hún gangi vel eins og í fyrsta skiptið. Svo ég spyr get ég undirbúið mig eitthvað fyrir fæðinguna með því að drekka mjólkuraukandi safa eða te. Ætli ég geti fengið viðtal við brjóstaráðgjafa svona fyrir fæðingu til að hjálpa mér að undirbúa mig, og ef svo er hvert á ég að leita?

Með fyrirfram þökk. Kveðja Lúsí.


 

Sæl og blessuð Lúsí!

Ég er sammála þér í því að það gott að reyna að undirbúa sig eins vel og maður getur. Sérstaklega er það mikilvægt ef maður óttast vandræði. Það er reyndar ekki hjálplegt að drekka mjólkuraukandi te eða safa. En það er ekkert mál að panta tíma hjá brjóstagjafaráðgjafa á meðgöngu. Þá færðu viðtal þar sem gerð er upp fyrri reynsla af brjóstagjöf og rætt hvernig best sé að standa að þeirri næstu og forðast um leið það sem úrskeiðis fór áður. Það eru brjóstagjafaráðgjafar sem taka á móti konum á sumum heilsugæslustöðvum og líka Landsspítalanum.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. júlí 2010.  

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.