Spurt og svarað

08. júlí 2006

Kvíði rosalega fyrir brjóstgjöfinni

Hæ hæ!

Takk fyrir frábæran vef. Þannig er að ég er komin 33 vikur og kvíði rosalega fyrir brjóstgjöfinni of hef eiginlega gert það alla meðgönguna. Ég er með inngrónar geirvörtur, alveg gjörsamlega sléttar! Ég er að heyra að sumar ljósmæðurnar eru svo á móti þessum mexíkanahöttum og maður getur lent á þvílíkt leiðinlegum ljósmæðrum þegar maður er búin að eiga! Má ég taka svona hatta með mér í fæðingartöskuna því ein vínkona mín lenti í þvílíku veseni með brjóstagjöfina og hún var þarna í nokkra daga útaf brjóstagjöfinni og svo endaði með því að einhver kona sem var með henni á stofu lánaði henni og þá gekk þetta eins og í sögu! Er hægt að láta meta geirvörturnar eða þú veist láta ljósmóðurina mína eða læknir meta þetta? Svo er ég búin að heyra að geirvörtur geta breyst á meðgöngu en ég hef ekki fundið fyrir því! Fyrirgefðu langlokuna

Takk fyrir.

Kveðja, ein kvíðin.Sæl og blessuð kvíðin!

Það er slæmt að þú skulir vera kvíðin alla meðgönguna vegna fyrirhugaðrar brjóstagjafar. Það er engin ástæða fyrir þig að ætla að illa gangi svona fyrirfram. Langflestar brjóstagjafir ganga eins og í sögu en stundum eru smáerfiðleikar í byrjun. Ég geri ráð fyrir að þetta sé þín fyrsta meðganga og þá er gott fyrir þig að láta ljósmóðurina þína skoða brjóstin eða jafnvel fá viðtal og skoðun hjá brjóstagjafaráðgjafa ef þú ert mjög áhyggjufull. Það er algengt í fyrstu meðgöngu að vörturnar virki sléttar en það kemur ekki í veg fyrir góða brjóstagjöf. Ef um inndregnar vörtur (hola þar sem vartan á að vera) er að ræða er stundum erfiðara að byrja brjóstagjöf en það fer þó eftir mörgum öðrum þáttum.  Ég ráðlegg þér ekki að taka með þér hatta á fæðingadeildina og er glöð að heyra að margar ljósmæður séu á móti þeim. Þeir eru fyrirbæri sem er oft notað að nauðsynjalausu og valda ómældum erfiðleikum hjá mæðrum.

Þínar vörtur eru skapaðar til að næra börnin þín og þú átt ekki fyrirfram að dæma þær ómögulegar. Æfðu frekar handfjötlun þeirra og hvernig þú heldur að þú getir best hjálpað barni að ná góði taki á þeim. Og ekki hlusta á konur sem hafa bara frá neikvæðri reynslu að segja. Þær eru fáar og þær eru ekki hjálplegar.

Með ósk um að þú fáir góða brjóstagjafabyrjun,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.