Kýli við jaðar brúna svæðisins

23.11.2006

Sælar fróðu konur.

Mig vantar smá upplýsingar, er samt ekki viss um að þetta sé rétti staðurinn til að spyrja en læt það vaða. Ég er með 7 mánaða stelpuna mína á brjósti. Fyrir nokkrum dögum myndaðist kýli við jaðar brúna svæðisins á öðru brjóstinu, þetta var virkilega vont þegar þetta var sem stærst, en hefur minnkað aðeins núna og ég finn ekki eins mikið fyrir þessu. Það er greinilega gröftur í þessu en það kemur ekkert út. Það er líka rauðleitt í kring. Ég hef fengið svona áður nokkrum sinnum, ekki svona stórt samt, og það gerðist áður en ég varð ófrísk svo ekki var það útaf stíflum þá, þar sem stelpan mín er mitt fyrsta barn. Ég veit að ég ætti að láta lækni kíkja á þetta en ég þori því varla:) Ef þið gætuð gefið mér einhverjar upplýsingar um þetta, væri það vel þegið,

Bestu þakkir fyrir frábæran vef.

Þórdís.


Sæl og blessuð Þórdís.

Það er því miður erfitt að átta sig á hvað um er að ræða. Það geta myndast kúlur eða fyrirferðir af ýmsum toga í brjóstagjöf. Ég veit t.d. ekki hvernig þú getur vitað að það sé gröftur í þessu ef ekkert kemur út. Mjólkurfyllt kýli eru nánast alveg eins viðkomu og graftarkýli. Miðað við lýsinguna myndi ég giska á að um stíflu væri að ræða en eins og þú minnist sjálf á þá þarftu að láta kíkja á þetta. Ef þetta hefur verið í nokkra daga og gefur einkenni eins og hita, roða eða verki þá gerirðu það ekki seinna en núna. Það er ekki eftir neinu að bíða. Ef um stíflu er að ræða geturðu lært aðferðir sem losa þig við þetta á 3-4 dögum.       

Með von um gott gengi

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. nóvember 2006.