Spurt og svarað

13. maí 2008

Lætur illa á brjóstinu

Sælar og takk fyrir þarfan vef :-)

Dóttir mín (3ja mánaða) er komin með þann leiða ávana þegar hún er að sjúga hjá mér að tosa í brjóstið og ýtir sér frá mér þegar hún er ennþá með vörtuna upp í sér. Hún lætur illa en sleppir samt ekki og núna er ég komin með sár á báðar geirvörturnar. Hún er ekki búin að tæma brjóstið þegar hún byrjar að láta svona, svo ekki er hún orðin södd.  Hún er með bakflæði sem er að ganga aftur og hef ég hana frekar mikið upprétta þegar ég gef henni, en ég gef henni yfirleitt í gömlu góðu stellingunni, þar sem hún hvílir á hendinni á mér. Veit ekki hvort þetta sé vegna bakflæðisins (höfum prófað Gaviscon og hjálpar það ekki neitt, enda er bakflæðið á undanhaldi) eða hvort þetta sé bara einhver brjóstagjafavilla sem við höfum ratað í?  Þetta endar yfirleitt á því að ég gef henni gangandi um gólf og það verður bara verra eftir því sem hún þyngist.

Við fórum erlendis fyrir nokkrum vikum og þá missti ég niður dálítið af mjólkinni og hefur daman fengið um einn pela á dag í ábót síðan, suma daga engan pela. Ég er að vinna upp mjólkina aftur, en það er bara vont þegar komin eru sár og maður fær kvíðahnút í magann þegar gefa á brjóst vegna sársauka.

:-/Bestu kveðjur, Ein með eina órólega.


Sæl og blessuð ein með eina órólega.

Það er oft erfitt þegar börn fara í gegnum þetta óróleikaskeið og þau eru auðvitað misslæm. Sum eru alveg að gera mæður sínar gráhærðar á meðan önnur klára þetta á fáum dögum. Þau eru mismunandi ráðin sem hjálpa. Á sum börn virkar eitthvað alveg frábærlega en hefur svo engin áhrif á næsta barn. Því verður að taka hvert barn fyrir sig og reyna allt sem manni dettur í hug að geti virkað og meira til.  Af ráðum sem hafa dugað sumum konum má nefna hljóðlátt umhverfi og enga truflun utanfrá, einhver viss "gjafastaður" sem virðist róa barn, ákveðin handtök við aftanverðan hálsinn (gengur best í öfugri kjöltustöðu),skipta alltaf um brjóst þegar barnið byrjar að vesenast og stytta gjafirnar um helming. Þessi ráð má prófa eitt í einu eða fleiri saman eða eitthvað annað eins og ég sagði. Þú getur verið viss um að þetta skeið gengur yfir en þú veist ekki hvenær það verður. Bakflæðið hefur engin áhrif á þessa hegðun og það er auðvitað ekkert „að“. Þetta er algjörlega eðlileg hegðun barns á þessum aldri.

Vonandi gengur þér vel að komast í gegnum þetta skeið.

Það er hins vegar hugsanlegt að ábótin hafi einhver truflandi áhrif. Ég mæli því með að þú sleppir henni. En ef sárin eru það slæm að þú kvíðir fyrir gjöfum þá er tímabært að láta skoða þau og laga sem allra fyrst.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.