Spurt og svarað

06. júlí 2009

Lagast sogvilla með aldri?

Dóttir mín er þriggja vikna gömul og brjóstagjöfin hefur gengið bærilega en strandar þó á því að telpukornið tekur brjóstið alltaf vitlaust. Þó að utan frá virðist allt í lagi kemur geirvartan alltaf svolítið kramin og lemstruð út úr henni. Við höfum fengið góða aðstoð fagmanna og sár mín eru að mestu gróin. Sú ráðgjöf sem við höfum fengið hefur þó snúist mikið um  að gera ástandið þolanlegt, því lítið er hægt að gera til að leiðrétta það alveg. Ég læt stúlkuna sjúga brjóstin á víxl í stuttum lotum til að hlífa þeim eftir megni og skipti reglulega um stellingar svo hún sé ekki að taka vitlaust á sama hátt. Með þessu móti getum við látið þetta ganga. Þetta er samt ekki sérlega skemmtilegt og ég er aum og sár í geirvörtunum. Því spyr ég hvort ég geti átt von á því að með aukinni æfingu og þroska hætti hún að lemstra á mér vörturnar? Hvorki snuð, mexíkanahattar né nokkuð annað en brjóstin á mér hafa komið inn fyrir varir barnsins.

 


Sæl og blessuð!

Það er slæmt að þurfa alltaf að vera aum og sár í vörtunum. Góðu fréttirnar eru þó að þetta ætti að geta lagast. Þú þarft að vera dugleg að nota sogþjálfunina sem þú hefur lært hjá fagmanninum því það flýtir ferlinu. Svo gæti líka hjálpað að fara reglulega og láta yfirfara stellingar og handtök hjá þér. Ef búið er að gefa þér einkunn um 100% rétt lagt á brjóst og þú notar þjálfunina ætti ástandið að lagast á tiltölulega stuttum tíma.

Vona að vel gangi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.