Spurt og svarað

04. apríl 2007

Langar strax í annað barn

Við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barn fyrir 10 vikum og langar mikið að eignast annað barn og það sem fyrst. Öll reynslan af fyrri meðgöngu,fæðingu og þessu yndislega barni hefur gert okkur pínulítið barnasjúk. Við gerum okkur grein fyrir að líkamlega gæti það orðið erfiðara fyrir mig en fyrri meðganga þar sem líkaminn er ekki búin að ná sér í upphaflegt form, en ætlum samt að reyna.
Við erum þó með nokkrar spurningar varðandi ferlið. Það er minnst á það í nokkrum svörum að ekki sé vandamál að hafa 2 börn á brjósti, jafnvel þó að ekki sé um tvíbura að ræða. Mig langaði að vita hvort að seinna barnið færi þá nokkuð á mis við broddmjólkina og ef ekki, hvða maður gæfi eldra barninu á meðan. Frysta mjólk eða broddinn líka?

Annað mál. Þar sem það gæti komið upp að ég verði ekki byrjuð á blæðinum áður en ég verð þunguð. Hvar lendir það í ferlinu?  Ég tek þungunarpróf ef ég byrja að fá einkenni en hvað svo?

Kærar þakkir fyrir hjálpina, nýbökuðu foreldrarnir.


Sæl og blessuð nýbökuðu foreldrar.

Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mjólkinni fyrir nýja barnið eða það eldra. Það verða ákveðnar breytingar á mjólkinni á meðgöngu nýs barns. Sumum börnum líka ekki þessar breytingar og þau hætta sjálf á brjósti. Öðrum börnum er alveg sama og halda galvösk áfram. Rétt fyrir fæðinguna verður broddmyndun fyrir nýja barnið þannig að það fær alltaf það sem það þarf. Eldra barninu verður alveg gott af því sem kemur en eins og áður sagði þá er misjafnt hvernig þeim líkar það. Ef það verður óhresst með mjólkina gerir það ekkert til. Það er hvort eð er orðið a.m.k. 9 mánaða og getur alveg drukkið vatn eða safa við þorsta og borðað mat til næringar.

Varðandi hitt málið þá ferðu til læknis til að fá staðfestingu þungunar þegar þú ert pottþétt á að einkenni eru til staðar. Hann metur meðgöngulengd og svo er hægt að fara sónar ef misræmi kemur fram.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.