Langt á milli gjafa

11.10.2007

Þannig er að ég á 3 mánaða gamalt barn og er með það eingöngu á brjósti. Vegna líkamlegra annmarka get ég eingöngu haft það á einu brjósti. Þegar barnið var um 6 vikna gamalt kom upp heilsufarsvandamál hjá mér og var mér ráðlagt að sinna ekki barninu á næturnar til að ég fengi sem heillegastan svefn.  Þetta er eitthvað sem ég verð að gera og er algerlega sátt við. Barnið tók pabba sínum strax vel og sætti sig fullkomlega við að fá ekki neitt frá mér á næturnar þannig að eftir 2 nætur svaf það án þess að vakna í 6 klukkustundir.  Það er síðan búið að lengjast í sex og hálfan tíma til átta tíma þar sem það sefur í einni lotu. Upphaflega þótti mér þetta æðislegt því ég þurfti svo á hvíldinni að halda. En núna er barnið orðið þriggja mánaða gamalt og brjóstið aðlagast ekki eins og ég hélt að það myndi gera.  Ég vakna algerlega eins og grjót og finnst hreinlega eins og brjóstið gæti „brotnað“.  Ég geri mér grein fyrir því að þetta er verra þar sem ég get eingöngu notað annað brjóstið. Ég hélt að brjóstið myndi jafna sig þar sem svo langur tími er kominn. Brjóstið jafnar sig á fyrstu tveimur til þremur gjöfunum en þangað til er tilfinningin ekkert sérstaklega þægileg. Barnið er mjög vært og líður vel í alla staði. Það þyngist sérstaklega vel eða alltaf 200 gr á viku eða meira þannig að annað brjóstið dugar mjög vel (fullt af fólki í kringum mig dró það svo mikið í efa að ég gæti verið með barnið á brjósti þar sem það var fyrir fram viðtað að ég gæti eingöngu notað annað brjóstið. Ég reyndar var dugleg að benda sama fólkinu á að tvíburamæður væru nú með sín börn´eingöngu á brjósti og ekki væri móðirin með 4 brjóst fyrir 2 börn heldur eingöngu 2 brjóst, þannig að ég hlyti nú að geta verið með 1 barn á 1 brjósti :)  )Er eitthvað sem ég get gert til að lagfæra mína líðan á morgnana? Eða er
þetta eitthvað sem er alveg eðlilegt og ég á að sættast við þar sem ég er með það á öðru brjóstinu og þarf að sofa heilan svefn yfir nóttina?  Er ég í meiri stíflu og sýkingarhættu þar sem þetta er svona hjá mér?

Takk kærlega fyrir góðan vef.


Sæl og blessuð.

Það er vel hægt að hafa barn á einu brjósti eins og þú ert búin að komast að og í augum brjóstagjafaráðgjafans en hitt brjóstið í raun bara til vara. Það er gott hjá þér að benda fólki á þetta með tvíburana því það er til stór hópur fólks sem heldur að ekki sé hægt að hafa tvíbura á brjósti og þar á meðal eru því miður tvíburamæður.Varðandi þitt vandamál þá er að sjálfsögðu erfiðara fyrir eitt brjóst að aðlagast svo löngu hléi en tvö. Það gerist þó að lokum en tekur miklu lengri tíma. Þetta er því annað hvort spurning um að þrauka eða bakka. Með bakka á ég við að fara aftur að vakna á nóttunni til að gefa einu sinni. Það er nokkuð sem þú verður að meta sjálf með tilliti til þíns heilsufarsvandamáls.

Við síðustu spurningunni er ekki hægt að svara öðru en jái. Það er smá aukin hætta á stíflum í brjósti sem lendir reglulega í svo löngu hléi.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2007.