Spurt og svarað

03. október 2008

Langt á milli gjafa og dregur úr þyngdaraukningu

Sælar og þakkir fyrir frábæran vef.

Ég er með nokkrar spurningar varðandi brjóstagjöf og þar sem þið eruð með einn færasta brjóstagjafarráðgjafann á Íslandi í svörum þá vil ég ekki leita neitt annað með pælingar mínar.  Ég er með eina 12 vikna á brjósti eingöngu og gengur það rosalega vel og stelpan hefur alltaf þyngst alveg virkilega vel (var 3300 gr við fæðingu og er 6600 gr í dag).  Nema að hún var alltaf að drekka á 2 tíma fresti allan sólarhringinn og það fór mest uppí 3 tíma á nóttunni. Og ég var sátt og vön þessari rútínu okkar. Nema að núna er hún að drekka á ca 4 tíma fresti frá 8 á kvöldin til 8 á morgnana og ég hef meira segja lent í því að það fari uppí 7,5 klst. Og það veldur mér smá áhyggjum því ég hef alltaf lesið það á síðunni ykkar að ef það líða meira en 6 tímar á milli gjafa geti mjólkin minnkað. Á ég að vekja hana á nóttunni svo það líði ekki meira en 6 tímar á milli eða leyfa henni bara algjörlega að ráða þessu sjálf?  Má ég ekki búast við því að það fari að hægja mikið á þyngdaraukningunni hjá henni núna þar sem hún er ekki lengur að drekka 10-12x á sólarhring?

Kveðja.Sæl og blessuð.

Þetta er mjög einkennandi fyrir breytt drykkjumynstur brjóstabarns. Og þegar barnið er orðið þetta gamalt þarftu engar áhyggjur að hafa af því. Þetta er orðið meira milli barnsins og brjóstanna. Þú ert bara framleiðsluvélin. Leyfðu þeim bara að hafa þetta eins og þau vilja.

Jú það er rétt hjá þér. Það verður töluverð hæging á þyngdaraukningu þegar börn eru um 3ja mánaða gömul. Þá fer þyngdaraukningin niður í 85 gr. á viku að lágmarki. Það kemur í sjálfu sér fjölda gjafanna ekkert við.

Gangi þér vel áfram.         

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
3. október 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.