Langur tími milli gjafa á nóttunni

17.08.2006

Sælar fróðu konur
Ég er að væflast með nokkur atriði í sambandi við brjóstagjöfina. Dóttir mín er 4 mánaða og er farin að sofa mjög vel flestar nætur, og sefur oft 8 til 9 tíma í einu án þess að vakna til að drekka. Hún drekkur aldrei nema annað brjóstið í hverri gjöf svo ég er að velta því fyrir mér hvort það sé einhver hætta á að missa niður mjólkina þegar svona langt líður á milli?  Hún sofnar svo yfirleitt aftur í 4 tíma og þá líða 12 tímar á milli annars brjóstsins, og það er dálítið langur tími. Ég hafði mikið fyrir því að ná upp mjólkinni og vil alls ekki missa hana niður. Hún drekkur samt ört yfir daginn, líða 2-3 tímar á milli.
Annað atriði er að hún drekkur sig sadda á um 15 mínútum og ég hef dálitlar áhyggjur af því að hún sé þá bara að fá formjólkina en engan rjóma. Er einhver tímalengd á því hvað börn eru lengi að drekka formjólkina þangað til rjóminn kemur?  Hún dafnar vel og heldur sinni kúrfu þyngdarlega séð og er almennt mjög ánægt barn.
Svo er það annað mál, mig langar að hafa hana eingöngu á brjósti aðeins lengur en báðar ömmurnar segja að ég EIGI að gefa henni graut ekki seinna en áðan, mér finnst hún ekki tilbúin til þess alveg strax, en hef tekið eftir því að barnamatur (grautar og mauk) eru sögð fyrir börn frá 4 mánaða aldri. Mig langaði aðeins að fá ykkar álit á þessu máli.
Bestu þakkir,
Þórdís


Sæl og blessuð.

Oftast sjúga börn bara annað brjóstið í einu og það virðist duga þeim. Mörg börn eru södd eftir 10 mínútna sog svo þín dama ætti að ná
rjómanum og öllu því besta á 15 mín. Það er gott að það líður ekki langt á milli gjafa á daginn og aftur lengra á nóttunni og úr því hún er að þyngjast vel þá er þetta allt í lagi - ef þér finnst mjólkin minnka eitthvað þá getur þú stytt tímann á milli með því að vekja hana en það virðist ekki þurfa núna.
Ég vil óska þér til hamingju með hvað þú er dugleg með hana á brjósti.  Það er mjög mikilvægt, ef þú getur, að hafa hana eingöngu á brjósti til 6 mánaða - það eru öll næringarefni í móðurmjólkinni sem hún þarf til 6 mánaða - það liggur ekkert á að gefa henni graut. Ráðleggingarnar í dag eru um það að börn séu helst eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
17.08.2006.