Lánsbrjóst

05.01.2010

Ég er að velta einu fyrir mér varðandi brjóstagjöf. Ég er með 9 mán. gamalt barn á brjósti, mjólka vel og stundum gott betur. Vinkona mín á von á barni fljótlega og lenti í miklum hremmingum með brjóstagjöf hjá fyrra barni. Erfiðleikarnir gengu yfir á 2 mánuðum, en þurfti að gefa barninu þurrmjólk á meðan sýkingar gengu yfir og sár gréru. Ég velti fyrir mér hvort ég geti aðstoðað hana, gefið barni hennar brjóst hjá mér eitt og eitt skipti ef allt fer á versta veg. Í raun til að losna við að gefa þurrmjólk. Nú miðast magn og flæði hjá mér við 9 mánaða gamalt barn og þar að auki viljum við að hún haldi mjólkinni. Væri e.t.v. betra að ég mjólkaði mig og við gæfum barninu pela? Væri gott að fá nokkra punkta frá ykkur um það hvernig er best að standa að svona svo að móður og barni líði sem best.

 


Sæl og blessuð!

Það var mjög algengt hér áður fyrr að gripið væri til svona ráða fyrir vini og vandamenn. En þetta er nánast liðin tíð eftir að í ljós kom að sumir alvarlegir sjúkdómar geta smitast með móðurmjólk. Það er bannað á spítulum að gefa börnum mjólk nema frá eigin móður og mjólk úr mjólkurbönkum (erlendis)er meðhöndluð til að drepa ákveðna sýkla. Auðvitast hefur heyrst um tilfelli náinna einstaklinga eins og t.d. systra sem treysta hvor annarri vel og gefa börnum hver annarrar en það er frekar sjaldgæft.

Ég veit að það er einstaklega falleg hugsun að baki og það hafa margar fleiri hugsað svona en því miður er þetta ekki gerlegt fyrr en tekist hefur að koma mjólkurbanka á laggirnar.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2010.