Latur að sjúga

28.02.2009

Ég á strák sem er rétt rúmlega 3ja mánaða. Hann er fyrirburi (kom 1 og 1/2mánuði fyrir tímann) og allt hefur gengið vel með hann. Hann fékk fæðu fyrst í gegnum sondu, síðan með pela og mexicanahatti vegna þess að hann réð ekki við brjóstið. Ég prófaði svo að hafa hann einungis á brjósti en varð svo rosalega aum í brjóstunum (tel það vera út af sogvillu) og þess vegna hélt ég áfram að gefa honum með mexicanahatti. Hann hefur einnig fengið pela með, stundum sem ábót, stundum á næturnar vegna þess að pabbi hans gefur honum eða ég er þreytt. Og stundum á daginn vegna annarra orsaka. Fyrir stuttu var hann eiginlega hættur að vilja bara brjóstið svo ég gaf honum með mexicanahattinum en nú er eins og hann vilji bara pelann. Eftir að ég hef gefið honum brjóst með mexicanahatti eða án, þá fer hann að væla og það er algjör pína að fá hann til að sjúga. Hann er sáttur þegar hann fær pelann og sýgur hann þangað til hann er saddur. Mig langar að vita hvað er að. Hvort hann sé bara latur við að sjúga (auðveldara að sjúga pelann) og hvort hægt sé að gera eitthvað í þessu? Er hægt að fá hann rólegan á meðan hann er að sjúga brjóstið eða yfir höfuð að nenna því?


 

Sæl og blessuð!

Þetta sem þú ert að upplifa er eðlilegt ferli barns sem lærir ekki á brjóst og það er ansi erfitt að breyta því. Ef brjóstið er ekki það sem barnið lærir á fyrst þegar það fer að sjúga þá er afar erfitt að kenna því það seinna. Þetta er líka orðinn langur tími. Það er þó oft reynt með því að taka burt pela og hatt. Þá fær barnið bara brjóst og stundum er notað svokallað hjálparbrjóst eða sonda á brjóstið til að láta það fá næringuna um leið og það er á brjósti. Þetta kostar töluverða vinnu í nokkra daga. Barnið kallar eftir forminu sem það þekkir orðið vel og er orðið svo klárt á. Það getur líka mótmælt við brjóstið og mæður taka því stundum sem mótmæli við sig sjálfar. Þannig að þetta getur verið erfiður tími. Og svo tekst þetta ekki alltaf en þetta er þó möguleiki.

Það er mikilvægt fyrir þig að passa upp á mjólkurframleiðsluna þína. Þannig fær barnið alltaf bestu næringuna hvernig svo sem hún fer ofan í það. Þú þarft að mjalta þig reglulega því ef þú notar hatt þá fer framleiðslan að minnka smám saman og þá verður ennþá erfiðara að fá barnið til að sjúga brjóst.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. febrúar 2009.