Lauklykt af brjóstamjólk

26.11.2008

Góðan dag!

Dóttir mín er orðin 3ja vikna gömul og brjóstagjöfin er að komast í eðlilegan farveg. Síðustu vikuna eða svo, hefur verið sterk lauklykt (eða álíka lykt) af brjóstamjólkinni, þrátt fyrir að ég hafi haldið mig algerlega frá öllum lauk. Ég tel mig vera hreinláta manneskju svo þetta er líklegast ekki af völdum óþrifnaðar. Ætli þetta sé tilkomið vegna mataræðis? Þetta háir okkur ekki. Dóttir mín drekkur vel, en þetta er frekar leiðigjarnt. Öll ráð eru vel þegin.

Kveðja. Móðir og 3ja vikna dóttir.

 


Sæl og blessuð!

Ég hef heyrt talað um ýmisskonar lykt af móðurmjólk en man ekki eftir akkúrat þessari lýsingu.
Jú, það er möguleiki að þetta sé vegna mataræðis en trúlegra þó að það eigi rætur að rekja til ensímvirkni í mjólkinni sem er algjörlega eðlileg. Ef þetta truflar ykkur ekki eða neinn í nánasta umhverfi  er óþarfi að gera neitt í málinu. Annars geturðu prófað þig áram með að yfirgnæfa lyktina með annarri lykt.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. nóvember 2008.