Laukur í brjóstagjöf

18.12.2011

Ég er með dóttur mína á brjósti. Hún er 3 og hálfs mánaða og er magakveisu barn. Hjúkkan ráðlagði mér að taka út alla mjólkurvöru og passa mig að drekka ekki kók og borða lítið sem ekkert grænmeti. Það er varla neitt sem ég má borða. Þetta er búið að vera rosalega erfitt en  undanfarið hef ég verið að leyfa mér að borða ýmislegt því ég hélt að þetta magavesen væri búið hjá henni. Ég hefði kannski ekki átt að fá mér kjötsúpu því í henni er laukur og mér var sagt að laukur væri eitur í maga á ungabörnum. Degi eftir kjötsúpuátið grét barnið mitt í klukkutíma. Er laukur á bannlista og á ég að hætta leyfa mér að borða hvað sem er?

Ein alveg búin á því.

 


Sæl og blessuð!

Það eru skiptar skoðanir á því hvort mataræði móður hefur áhrif á hegðun brjóstabarna. Brjóstagjafaráðgjafar ráðleggja mjólkandi mæðrum yfirleitt að borða allt sem þær vilja. Sum börn sem koma oftast úr miklum ofnæmis eða óþolsfjölskyldum eru þó greinilega viðkvæmari en önnur. Ef þú ert úr þannig umhverfi getur hjálpað að vanda fæðið og þá sérstaklega að sleppa mjólkurvörum. Að öðru leyti gæti verið ráðlegt að fylgjast með hvort ekki geti verið aðrar ástæður fyrir óværð barnsins. Og sem svar við spurningunni þá er laukur langt frá því að vera á einhverjum bannlista.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. desember 2011.