Spurt og svarað

17. ágúst 2010

Lausmjólka og ráðalaus

Sæl!

Ég á þriggja mánaða gamlan dreng sem er eingöngu á brjósti. Hann er nýfarinn að nota snuð en eingöngu þegar hann fer að sofa. Það hefur verið vandamál frá upphafi hvað ég er með hratt losunarviðbragð. Hann þarf varla að sjúga nema tvisvar, þrisvar og þá spýtist mjólkin upp í hann. Ef hann sleppir vörtunni í byrjun gjafar þá sprautast mjólk langar leiðir í allar áttir. Frá fæðingu hefur hann verið slæmur af loftgangi sem ég tengi hvað hann gleypir mikið loft í gjöfum. Hann þrífst vel að öllu leyti en þetta er að valda okkur báðum leiðindum í gjöfum.Hann byrjar að sjúga og kannski hálfri mínútu seinna verður allt vitlaust. Hann byrjar að láta ófriðlega og togar vörtuna í allar áttir, sparkar og rembist, svo fer hann að orga. Stundum svelgist honum svo rosalega á að ég verð að hætta gjöf. Ég er búin að fá ráðleggingar frá ljósunni um að hann sé að taka brjóstið rétt. Er búin að prófa að liggja út af til hálfs, liggja alveg, halda um vörtubauginn, láta hann ropa oft í gjöf en ekkert gengur. Þetta er langverst fyrripart dags.Ég er nokkuð viss um að ég sé ekki að framleiða of mikið því hann nær nú að drekka þetta allt á endanum og á kvöldin drekkur hann mjög oft úr báðum brjóstum. En svo virðist sem það gangi eingöngu að drekka vandræðalaust  hálfsofandi.Eldri sonur minn var langveikur og gat ekki drukkið svo ég mjólkaði mig fyrir hann, og þótti það svo ömurlegt. En nú er bara eitt ráð eftir! Og það er að mjólka úr brjóstinu áður en ég legg hann á það.Er eitthvað annað hægt að gera? Ætti ég þá að gefa honum úr pela það sem ég mjólka? Ég er virkilega ráðalaus! Var farin að hlakka svo til að hafa barn á brjósti. Er einhver von til þess að hann vaxi upp í að ráða við þetta hraða flæði?Afsakið langlokuna, ég vildi bara segja alla söguna. Ég vona að þið getið hjálpað!

Kv. Strákamamma.


 

Sæl og blessuð Strákamamma!

Þetta er erfitt vandamál við að eiga og ekkert eitt töfrabragð til sem lagar þetta.  Það þarf að vera sambland af nokkrum atriðum. En oftast er þetta vel viðráðanlegt vandamál. Þú segir að gripið hans sé rétt og það er gott, mikilvægt atriði. Hins vegar er mín reynsla að staðsetning barnsins sé mikilvægari. Munnurinn og hálsinn verða að vera í beinni línu. Þetta er kölluð sverðgleypisstelling (eins og þegar sverðgleypir lætur sverðið renna ofan í hálsinn). Þetta þýðir að barnið verður að hafa höfuðið mjög afturreigt. Þegar þú hefur náð tökum á þessari tækni er hálfur sigur unninn. Síðan er að stjórna rennslinu úr brjóstinu eins og hægt er. Æfðu þig fyrst án barnsins. Settu flæðið af stað og þegar farið er að spýtast úr brjóstinu æfirðu þig á að finna hvernig þú getur hægt verulega á því með því að klípa saman brjóstið. Þú þarft að finna hversu nálægt vörtu þú þarft að vera og hversu fast þú þarft að klemma saman. Síðan yfirfærirðu þetta á brjóstagjöf barnsins. Í þriðja lagi er það offramleiðsla sem maður er alltaf svolítið hræddur við. Passaðu þig að stoppa allan leka sem þú verður vör við og reyndu að láta 1 brjóst duga í kvöldgjöfum. Aðferðin sem þú stingur upp á er sú síðasta sem ég myndi mæla með en það eru til konur sem hefur tekist að láta það virka svo það er auðvitað inn í myndinni. Já, þá myndirðu gefa með pela. Það eru flest börn sem vaxa að hluta eða öllu leyti upp úr þessu. Þú ert á erfiðasta mánuðinum núna.
Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.