Leikfimi með barn á brjósti

14.01.2010

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég á rúmlega 6 mánaða gamlan dreng sem hefur verið eingöngu á brjósti hingað til. Ég byrjaði mjög fljótt að vera dugleg að hreyfa mig sem er gott og blessað . Þegar hann var rúmlega 3ja mánaða (fyrir 12 vikum síðan) byrjaði ég í mömmuleikfimi sem er hörkupúl og svakalega skemmtileg og tók mataræðið í gegn í leiðinni til að vinna í því að ná meðgöngukílóunum af mér. Þau sátu ansi fast eftir síðustu meðgöngu. Málið er að á þessum 12 vikum er ég búin að missa ansi mörg kíló sem ég er sátt við að vera laus við . Það sem ég er hrædd við er að ég hef lesið að það geti losað einhver eiturefni út í mjólkina þegar mæður missa þyngd svona hratt. Er þetta eitthvað sem að ég þarf að hafa áhyggjur af og er þetta eitthvað sem hefur áhrif á barnið mitt?

Kv. mamman.

 


Sæl og blessuð mamman!

Það er auðvitað hið besta mál að þér gengur svona vel að hreyfa þig og ná fyrra formi. Þegar verið er að vara konur við of hröðu þyngdartapi er sérstaklega talað um fyrstu 3 mánuðina. Þú ert komin yfir þann tíma sem er gott. Hins vegar þarftu að passa þig að fara ekki of geyst í sakirnar. Þú gefur reyndar ekki upp neinar tölur þannig að þú skalt lesa þér til um þetta og reyna að fara ekki fram úr þeim viðmiðum sem gefin eru upp. Mér finnst reyndar ólíklegt að þú sért að fara fram úr þér en hvað veit ég.

Gangi þér vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. janúar 2010.