Spurt og svarað

16. júlí 2012

Leiðinleg á brjóstinu

Stelpan mín er búin að vera mjög leiðinleg á brjósti síðustu 2 vikurnar. Hún tekur brjóst í smá stund og grenjar síðan svakalega. Enhún  stoppar við að fá snuð. Svona gengur þetta koll af kolli þar til hún er orðin alveg snar. Ég fór til hjúkkunar í síðustu viku sem sagði að hún væri eflaust bara södd. Ég efast um það einhvern veginn. Hún t.d drakk illa í nótt og í morgun. Síðan drakk hún enn verr um kl.10 og var alveg snar. Ég vissi að hún var ekki södd. Ég mjólkaði mig í flýti og hún drakk þá 100 ml. sallaróleg úr pela. Ég er með mjög mikið flæði og svakalega lausmjólka. Stelpan er orðin 7 vikna og þyngist mjög vel. Þyngdist t.d úr 4.900 gr í 6 vikna skoðun í 5.400 gr 7 vikna. Hvað er hægt að gera? Hún hefur ekki oft fengið pela og ætti varla að kunna að taka hann framyfir brjóstið, eða hvað? Er þetta eins og hún sé að hafna brjóstinu?
 

Sæl og blessuð!
Þessi hegðun sem þú lýsir er mjög einkennandi þegar um of hratt flæði mjólkur er að ræða. Þetta er líka gjarnan sá tími sem vandamál byrja að sjást. Það er margt hægt að gera til að reyna að laga þetta vandamál. Fyrir það fyrsta þarftu að vera með stjórn á mjólkurframleiðslunni. Það þýðir að þú verður að stoppa allan  umfram mjólkurleka úr brjóstunum. Það geturðu gert með dyrjabjöllunni eða klipinu og góðum hlífum. Svo getur hjálpað að breyta um gjafastellingu. Gefa meira liggjandi eða hafa barnið lóðréttara í sitjandi stellingu. Og svo þarftu að æfa þig á að hægja á mjólkurflæðinu í byrjun gjafarinnar með því að taka þétt utan um brjóstið. Ef þér gengur illa að ná tökum á þessu skaltu leita þér hjálpar við það. Sem svar við annarri spurningunni er ekki hægt að segja að barnið taki pela framyfir brjóstið en á þessum tímapunkti er léttara fyrir það að drekka úr pela sem ekki gusast eins hratt úr.Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af framleiðsugetunni þinni. Það er næg mjólk. En ef svona vandamál er látið óáreitt eða ekkert gert til að reyna að laga það endar það stundum með höfnun brjósts.

Vona að þetta gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.