Leki úr brjóstum

29.03.2009

Sælar!

Ég á 19 mánaða gamla dóttur sem var á brjósti til 1 árs. Brjóstagjöfin gekk vel. Strax eftir fæðingu var ég komin með mjólk og reyndar á 36 viku fór að leka úr brjóstunum. Þrátt fyrir að brjóstagjöf hafi lokið fyrir 9 mánuðum hef ég aldrei þornað alveg upp. Ég hef aldrei fundið fyrir óþægindum eða brjóstastíflu. Í október var framleiðslan þó orðin mjög lítil. Í endaðan nóvember komst ég að því að ég var ólétt aftur (lítið kraftarverk þar sem við þruftum hjálp til að eignast stelpuna). Fyrstu vikur meðgöngunar prófaði ég að sjá hvort mjólk væri ennþá í brjóstunum og komu þá alltaf smá dropar. Það var svo í byrjun janúar sem ég missi fóstrið komin 10 vikur á leið og þurfti að fara í útskaf. Strax eftir aðgerðina fann ég breytinar á brjóstunum og það lak töluvert frá þeim. Það minnkaði smám saman. Núna erum við byrjuð í tæknimeðferð og ég búin að fara í uppsettningu. Núna er vika frá uppsettningu og síðan þá hefur lekið töluvert úr brjóstunum á mér, sérstaklega á nóttunni og þegar ég held á stráknum. Mig langar að spyrja hvort þetta sé eðlilegt? Þarf ég að hafa áhyggjur? Ég nefndi þetta við læknana hjá Art Medica og þeir söguð bara að ef þessi meðferð gengi ekki upp væri gott að senda mig í blóðprufu og mæla mjólkurhormón.

Kveðja. xxx.

 


Sæl og blessuð xxx!

Þú ættir ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af þessu. Það er væntanlega há þéttni hormóna hjá þér á þessu stigi og það getur haft mikil áhrif á mjólkurframleiðslu sem ekki var að fullu lokið. Þú þarft samt að gæta þess að vera ekki alltaf að gá að þessu. Ekki kreista vörturnar því þá ert að viðhalda framleiðslunni. Þú getur viðhaldið framleiðslu í mörg ár með því móti. Láttu brjóstin sem mest eiga sig.

Gangi þér sem allra best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. mars 2009.