Spurt og svarað

15. ágúst 2005

Leki úr brjóstum

Sæl.
Það er nú þannig að ég er með mjög mikinn mjólkurleka úr báðum brjóstum. Daman er 7 daga gömul og gengur illa að taka brjóst vegna stálma, sem er nú nánast farinn. Ég mjólka mig því í staðin og gef henni pela, ensamt sem áður lekur úr brjóstunum eins og úr krana. Ég ræð ekkert við þetta, þrátt fyrir að nota tvöfalt brjóstainnlegginnlegg og vera með taubleyjur innan við brjóstahaldarann, fer allt í gegn.  Er þetta eitthvað tímabundið vegna stálmans eða er þetta eitthvað sem verður alltaf?
Kveðja

............................................


Sæl og blessuð.

Það er óþægilegt að vera með mikinn mjólkurleka en þú getur verið alveg róleg það er ekki til frambúðar.  Þú ert enn á fyrstu dögum brjóstagjafar og þá getur stundum lekið mikið. Þú segist líka vera með leifar af stálma sem veldur því að
mjólkin lekur undan þrýsting. Því ætti nú að fara að ljúka og þá dregur strax úr lekanum.  Þú þarft hins vegar að einbeita þér að aðalvandamálinu en það er að
koma barninu aftur á brjóst. Það er slæmt að þurfa að gefa svo ungu barni pela og þú þarft að hætta því eins fljótt og mögulegt er. Því oftar sem þú gefur því pela því erfiðara verður að koma því aftur á brjóst. Þannig að það verður þitt aðalverkefni næstu daga. 

Svo þarftu að læra að stoppa leka úr brjóstum. Það er notuð aðferðsem kölluð er dyrabjölluaðferðin. Þegar byrjar að leka þá ýtirðu beint framan á geirvörtuna með fingurgómnum eins og þú sért að ýta á dyrabjöllu. Þú heldur á meðan þú telur upp á 15-20 og sleppir svo. Þá er lekinn hættur. Fyrst um sinn hættir hann kannski bara stutta stund en því oftar sem þú notar aðferðina því betur virkar hún. Eftir 1-2 vikur áttu ekki að þurfa að nota innlegg nema stöku sinnum og um 6 vikum eftir fæðingu hættir mjólkurleki svo til alveg. Þannig að það eru bjartari
tímar framundan.

Með bestu kveðjum og von um 6 mánaða brjóstagjöf eingöngu.
                               

Katrín brjóstagjafaráðgjafi,
15.08.2005 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.