Spurt og svarað

30. ágúst 2005

Leki úr brjóstum 11 vikum eftir fæðingu

Sælar!

Kærar þakkir fyrir frábæran vef sem hefur hjálpað mér mikið, bæði á meðgöngunni sem og eftir hana.  Mig langar að forvitnast hjá ykkur þar sem ég las í einni fyrirspurninni hjá ykkur að leki úr brjóstum ætti að hætta eftir tvær þrjár vikur eftir fæðingu og vera alveg hættur eftir sex vikur! Er ég þá hrikalega óvenjuleg? Stúlkan mín er nefnilega orðin 11 vikna og það lekur ennþá hryllilega mikið úr brjóstunum á mér og ég verð að vera með þessa púða stanslaust.  Hún tók brjóstið illa fyrst enda var hún léttburi og fékk pela og sondu fyrstu dagana sína og síðan var hún á pela í þrjár vikur, en mér tókst síðan að láta hana eingöngu á brjóstið.

.................................................................................

Sæl og blessuð.

Að sjálfsögðu ertu ekki hrikalega óvenjuleg. Þú fékkst ekki alveg venjulega byrjun og þá getur framhaldið líka orðið tímabundið svolítið öðruvísi. Það eru líka alltaf svolítil einstaklingsfrávik í þessu eins og öllu öðru. Sumar konur leka meira en aðrar á meðgöngu eða á fyrstu vikunum eða seinna eða á öllum þessum tímum. Mér finnst allavega alveg frábært hjá þér að koma barninu á brjóst eingöngu eftir þessa erfiðu byrjun því ég veit hvað það er erfitt. En nú skaltu reyna að vera dugleg að kenna brjóstunum á þér að hætta að leka svona mikið. Til þess notarðu „dyrabjölluaðferðina“. Þú ýtir með fingurgóminum beint framan á geirvörtuna og telur upp að 15. Þá sleppirðu og þá er lekinn hættur. Þegar hann byrjar aftur þá ýtirðu strax aftur á sama hátt. Í nokkra daga getur verið að þú þurfir að ýta ansi oft en svo lagast ástandið. Til að byrja með þarftu að ýta á bera vörtuna en fljótlega geturðu farið að ýta gegnum föt eða á brjóstapúðann.

Með von um minnkandi leka,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.