Spurt og svarað

18. október 2009

Leki úr nös

Góðan daginn!

Mig langar að athuga með eitt varðandi brjóstagjöf og að gefa útafliggjandi. Ég gef þannig á nóttunni. Þegar ég gef er ég alltaf með taubleiju undir honum og er hún stundum blaut en stundum þurr. Stundum er búið að vera vesen að gefa honum að drekka. Hann grét því hann var svangur og þreyttur en ef ég lét hann í fangið þá orgaði hann bara áður en ég reyndi að setja hann á brjóstið. Ef hann var nógu rólegur þá byrjaði hann kannski en fór svo að hágráta eftir nokkur sog. Nema í morgun náði ég að gefa honum útafliggjandi. En þá tók ég eftir (og hef séð það áður) að það drýpur mjólk út um nösina sem snýr niður að dýnunni. Hann sofnaði nánast strax og var að hálf sjúga. Ég las á erlendri síðu að maður gæti mögulega fengið þau til að drekka meira með því að sprauta upp í þau svo ég prufaði að kreista laust brjóstið og viti menn það hætti að drjúpa og bara rann út um nösina á drengnum. Er ekki alveg að fatta þetta. Þetta getur ekki verið gott er það? En með næturgjafirnar þegar að taubleijan er blaut ætti ég að hafa áhyggjur? En hann þurfti að fara nokkrum sinnum af brjóstinu bara til að anda og stundum lak mjólkin bara út um munninn á honum það rann svo hratt.

Með von um svör. Kv Jónína.


 

Sæl og blessuð Jónína.
Það er í rauninni ekkert óeðlilegt við þennan nasaleka. Börn eru með mjög vítt nefkok sem þýðir að það er mjög auðvelt aðgengi að nefi. Mjólk gengur auðveldlega upp í nefið á þeim og í liggjandi stöðu getur þetta orðið bein leið út. Þetta er auðvitað meira áberandi ef mjólkurflæði er kröftugt. Það þarf í raun ekkert að gera við þessu en ef þetta truflar móður hefur verið ráðlagt að hækka undir höfðalagi barnsins.

Það kemur reyndar ekki fram hversu gamalt barnið er en það gæti verið að þú þyrftir að æfa þig í að hægja á flæði mjólkur í byrjuninni.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.