Spurt og svarað

20. júní 2011

Lélegar geirvörtur

Sælar og takk fyrir yndislega vef!
Ég er með einn 3 mánaða gutta.Brjóstagjöfin hefur verið pínu brösugleg hjá okkur frá byrjun. Ég fékk stálma, blæðandi sár, sogvillu o.fl. Ég hef nokkrum sinnum fengið slæman stálma og sogvillu þannig að ég fæ fjólubláar geirvörtur og er helaum. Núna er svo staðan sú að drengurinn er orðinn kraftmikill, kýlir, klípur og klórar í bringuna mína, nær illa taki á geirvörtunni og fer af nánast áður en hann nær gripi. Þegar hann nær gripi togar hann vörtuna hálfpartinn út úr sér og í allar áttir. Þetta er síður en svo þægilegt. Ég las mér til um of hratt losunarviðbragð og fór að ráðum sem gefin voru. Það virkaði í smá tíma að gefa liggjandi, en hann fer alltaf hálfpartinn af og stundum finnst mér líka eins og hann nenni ekki að hafa fyrir því að ná feitu mjólkinni. Ég keypti mér lítið sogtæki frá Lansinoh til að hjálpa við að móta geirvörtuna en hún verður bara aftur eins og hún var. Ég veit ekki hvort ég er með þrönga mjólkurganga eða hvað en ég er farin að halda að ég sé með lélegar vörtur fyrir brjóstagjöf. Þær eru frekar litlar og ef ég klípi brjóstinu saman finnst mér þær stundum fara innávið eða verða flatar. Hann kann samt alveg að sjúga og hann er með fínt sog en ég held bara ekki  að vartan mín nái lengst uppí góm þar sem hún á að vera. Ég veit að ég er með mjólk, þó það sé stundum minna í mér á kvöldin en þetta bara gengur ekki. Ég er við það að gefast upp en langar svo mikið að halda áfram að gefa brjóst. Þetta er bara ekki skemmtilegt lengur hvorki fyrir mig né litla kútinn minn sem verður stjarnfræðilega pirraður. Með fyrirfram þökk.
 
Sæl og blessuð!
Það getur verið erfitt að gefa brjóst ef barnið er alltaf með pirring og vesen. Það getur hins vegar verið óljóst á stundum hvað er pirringur og hvað er eðlileg hegðun. Börn eru oft snillingar í að finna út hvaða aðferð við brjóstið hentar best. Eftir fyrstu 6-8 vikurnar verður brjóstagjöfin oft meira á forsendum barnsins heldur en móðurinnar. Þá eru þau gjarnan búin að finna út þá aðferð sem gefur þeim næringuna á þeim hraða sem þeim hentar og framkvæma athafnir í gjöfinni sem eru þeim til góða. Mér finnst ólíklegt að það sé eitthvað að vörtunum þínum. Þær eru búnar að útvega barninu mjólk í 3 mánuði og koma til með að halda því áfram. Þú þarft ekki að velta fyrir þér lengur hversu langt inn í munninn hún fer. Eldri börn eru mjög gjarnan að teygja og toga á vörtum en það er bara partur af ferlinu. Ég veit að það er óþægilegt en það skánar. Það má reyna að styðja betur höfðinu við brjóstið en virkar bara að hluta til. Fitl, klip, klór og bank í brjóst og bringu er aðferð barna við að hvetja brjóstin til mjólkurframleiðslu sem virkar vel. Þau eru auðvitað mis áköf í þessu en það þarf ekki líta á þetta neikvætt. Hvort mjólkurgangar eru víðir eða þröngir er erfitt að meta af bréfinu en ef barninu svelgist á í gjöfum getur hjálpað að gefa liggjandi. Mér sýnist brjóstagjöfin hafa þróast í átt sem þér hugnast illa. Það er spurning hvort þú getir aðlagast henni á einhvern hátt eða fengið hjálp við að breyta einhverju til að þér líði betur.
Vona að það gangi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. júní 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.