Spurt og svarað

24. júní 2005

Léttburi, minnkandi móðurmjólk

Sælar!

Þannig er mál með vexti hjá mér að ég eignaðist yndislega stúlku 10. júní síðastliðin eftir 37 vikna og 5 daga meðgöngu.  Hún var við fæðingu ekki nema 9 merkur og því flokkast hún undir eitthvað sem kallast léttburi. Hún átti erfitt með að nærast fyrstu dagana og fór því á vökudeildina, þar sem henni var gefin þurrmjólk bæði með sondu, pela og sprautu, þar til að ég gat farið að gefa henni smá úr brjóstunum.  Síðan þegar brjóstagjöfin var öll að komast á hreint hjá henni, þó svo hún sé frekar löt við að sjúga enda vön að geta fengið þetta mjög auðveldlega, þá þurfti ég að fara í sneiðmyndatöku þar sem mér var gefin skuggaefni og mátti ég ekki gefa henni í sólarhring.  Ég pumpaði mig á meðan en síðan þá hefur brjóstagjöfin farið niður á við. Hún sýgur í ákveðin tíma, þar til hún sofnar og nennir ekki meir. Síðan koma háværar rokur eftir smástund þar sem lítill malli er svangur.  Hef því þurft að gefa henni ábót sem bæði það sem ég hef sjálf reynt að ná úr brjóstunum og síðan þegar það þrýtur, þurrmjólk.  Er einhver leið til þess að auka aftur mjólkina í brjóstunum? Hún er á þriggja tíma gjöfum litla skinnið og ég hefði haldið að það ætti að í sjálfu sér að vera nóg til þess að halda við starfsemi mjólkurkirtlanna.  Mig vantar hjálp til þess að vinna úr þessu því ég vill síst af öllu að hún missi af móðurmjólkinni eftir það sem er undan gengið enda það líklega einna best fyrir hana til þess að ná upp þyngd og hreysti.

Með von um skjótt svar, mömmu sem vantar mjólk.

..............................................................................

Sæl og blessuð.

Það er stundum erfiðara að byrja brjóstagjöf léttbura en kosturinn við þá er yfirleitt að þeir kalla vel eftir mat sínum eins og þú ert að lýsa. Ég er ekki viss um að þriggja tíma gjafir séu nógu margar gjafir fyrir hana allavega ekki svona fyrst í stað. Reyndu að fjölga þeim eins og þú getur. Það felst líka fjölgun í að skipta oftar um brjóst. Lítil og létt börn þurfa sérstaklega góðan stuðning í brjóstagjöfinni. Notaðu góðar gjafastellingar eins og öfuga kjöltustöðu eða fótboltastöðu og vertu viss um að þú haldir þétt utan um hana og styðjir hana vel. Hún þarf líka á því að halda að þú hjálpir henni sérstaklega vel að ná góðu gripi á vörtunni því barn sem nær lélegu gripi nennir ekki að sjúga. Haltu svo góðu taki á brjóstinu fyrir hana alla gjöfina. Þú hefur ábyggilega heyrt um trixið að hafa börn léttklædd til að örva þau í gjöfum. Notaðu það óspart. Ekkert teppi eða sæng yfir henni í gjöfinni og úr fötunum líka (allavega sokkunum) Ef heitt er í herberginu skaltu opna glugga ef gott er veður. Svo er náttúrlega mest örvandi fyrir sog að þú sért líka ber að ofan svo húðir ykkar snertist. Í gjöfinni sjálfri myndi ég ráðleggja þér að nota brjóstakreistun til að hjálpa til við mjólkurflæði og notaðu hana líka óspart. Ekki hafa áhyggjur af mjólkinni. Hún eykst smátt og smátt eftir því sem hún sýgur oftar og lengur hjá þér og fær minni ábót. Þurrmjólkurábót veldur því að hún sefur lengur og þá ertu að missa af mikilvægri brjóstagjöf, sem aftur myndi auka mjólkurframleiðsluna hjá þér o.s.frv. Og alls ekki örvænta. Þú ert bara á fyrstu dögum brjóstagjafarinnar og enn í standi til að móta hana svo að segja að eigin vild.

Með ósk um að það fari fljótt að ganga betur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.