Spurt og svarað

14. febrúar 2007

Léttist of mikið - með barn á brjósti

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Þar sem ég er nýlega flutt frá Ísland, tel ég mig ekki hafa alveg nógu góðan aðgang að upplýsingum frá minni ungbarnavernd og því ákvað ég að leita til ykkar.

Þannig er að ég er með 4½ mánaða dóttur sem er eingöngu á brjósti. Hún fæddist létt og mér ráðlagt að gefa þurrmjólk með fyrstu daga til að tryggja nægar hitaeiningar. Stelpan var hins vegar aldrei hrifin af henni og því fór aldrei mikið af henni ofan í hana. Ég gafst því fljótlega upp á því enda var stelpan frá fyrsta degi mjög dugleg á brjóstinu og fór strax að þyngjast. Hún tyllti sér fljótt 1 staðalfráviki fyrir neðan meðalkúrfu (fædd um 3 fyrir neðan) í þyngd og lengd og hefur haldið því síðan. Brjóstagjöfin hefur því að mínu mati gengið mjög vel og ég upplifað hana á ánægjulegan hátt. Málið er hins vegar það að brjóstagjöfin er að éta mig upp til agna. Ég er sjálf mjög létt og var fyrir meðgöngu undir kjörþyngd. Ég þyngdist ekki mikið á meðgöngunni og var því komin undir mína venjulegu þyngd mjög fljótlega eftir fæðingu. Ég hef svo haldið áfram að léttast og er nú komin langt undir kjörþyngd. Ég finn að ég er oft þreytt og orkulaus og þá er oft stutt í viðkvæmni eða pirring. Ég tek það þó fram að ég beini því aldrei að barninu, því auðvitað elska ég hana meira en allt!! Ég hef gripið til þess ráðs að leita í hitaeiningaríkari fæðu, s.s. feitari mjólkurafurðir, hnetur,  súkkulaði, ís eftir máltíðir og eins fæ ég mér eitthvað þegar ég vakna á nóttunni. Þetta virðist hins vegar ekki duga og fólk er farið að hafa áhyggjur af heilsu minni. Stelpan er að drekka á u.þ.b. 3ja tíma fresti allan sólarhringinn. Ég hef ekki fundið fyrir að hún sé svöng, enda hef ég ekki tekið eftir að brjóstin verði  „tóm“ eftir gjafir. Ég virðst því mjólka vel, þrátt fyrir allt. Stelpan er hins vegar stundum dálítið ósæl, sem ég hef talið stafa af meltingaróþægindum þar sem hún kúkar (og hefur gert frá fæðingu) 8-10 x á dag.

Ég veit að brjóstagjöf er talin æskilegust ein og sér fyrstu 6 mánuðina og hef alltaf stefnt að því að hafa það þannig. Ég veit hins vegar ekki hvort heilsa mín mun leyfa það í 1½ mánuð í viðbót, þó ég vilji það helst af öllu. Hvað ráðleggið þið mér að gera? Ef ég fer út í það að gefa henni eitthvað með, til þess að létta til með mér, á ég að gefa henni þurrmjólk eða fara út í það að gefa henni graut? Ég tek það fram að ég er mjög treg til að fara út í þessar aðgerðir þar sem stelpan virðist dafna eðlilega og ég hef fullan hug á að halda brjóstagjöfinni áfram a.m.k. fram yfir 1 árs aldur.

Kær kveðja, Ein ráðavillt.


Sæl og blessuð!

Það eru mjög margar mæður sem fara út í það að gefa þurrmjólk eftir 4 mánaða aldur, og jafnvel graut eftir 5 mánaða aldur. Það verður alltaf að meta heilsufarsaðstæður móður og barns og það að hafa náð því að gefa henni brjóst eingöngu í 4 mánuði er alveg frábært - svo það getur verið ráðlegt að gefa þurrmjólk þegar heilsa móðurinnar leyfir kannski ekki þetta álag sem fylgir brjóstagjöfinni. Það er mikill bruni í líkama móðurinnar við að framleiða mjólkina og sumar mæður eiga það til að grennast of mikið á brjóstagjafa tímabilinu. Svo meta verður aðstæður í hvert sinn.

Gangi þér vel.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. febrúar 2007.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.