Liggjandi brjóstakonan

23.12.2005

Komið þið sæl!

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort barn getur tekið ástfóstri við einhverja ákveðna stellingu þegar það tekur brjóst því barnið mitt neitar að drekka öðruvísi en liggjandi upp í rúmi eins og gert er á nóttunni. Barnið er 6 mánaða gamalt og er nýfarið að taka upp á þessum ósið ef svo má orði komast. Þetta getur nú verið svolítið neyðarlegt ef maður er á flakki eða í heimsókn að þurfa að leggjast á gólfið eða í rúm hjá viðkomandi. Hvað getið þið ráðlagt manni í þessari stöðu?

Kveðja, liggjandi brjóstakonan.

.....................................................

Sæl og blessuð liggjandi brjóstakona!

Það er stöku barn sem tekur upp á þessu á „gamals“ aldri. Þ.e.a.s. þau eru oftast orðin 5-10 mánaða. Það eru til ýmsar kenningar um orsakir. Að þetta byrji með einhverjum sérstaklega ánægjulegum gjöfum sem þau vilja halda í. Sumir segja að þetta byrji með einhverjum óþægindum t.d. eyrnaverk, magaverk eða veseni með gjöfina sjálfa. Síðan finna börnin að óþægindin eru ekki eins mikil í liggjandi stöðu eða hverfa og svo vilja þau halda þessu til streitu eftir það. En aðalatriðið er kannski ekki hver er orsökin heldur hvort hægt sé að breyta þessu. Svarið er já. Það er vissulega hægt að breyta þessu hjá mörgum börnum en ekki öllum. Aðaltrixið virðist vera að breyta þessu eins rólega og hægt er þannig að barnið taki eiginlega ekki eftir því. Þú hækkar undir höfði og öxlum með kodda eða púða. Þannig gefurðu í 2-3 daga. Svo hækkarðu upphækkunina og hefur það þannig í 2-3 daga. Við 3ju upphækkun ertu orðin hálfupprétt í gjöfunum og síðan heldurðu áfram þar til þú situr alveg upprétt. Það getur verið að þér finnist þú voðalega hallærisleg svona skökk og skæld á tímabili en þessi aðferð getur virkað mjög vel. Sumar mæður segja að það skipti máli að dreifa athygli barnsins í gjöfinni. Þú getur reynt það líka ef þú vilt.

Með kveðju og ósk um upprétt nýtt ár,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. desember 2005.