Líkamsþjálfun og brjóstagjöf

18.04.2005

Hæ, hæ!

Mig langar svo að vita hvenær óhætt er að byrja að stunda líkamsrækt eftir fæðingu og hversu mikla þjálfun má stunda án þess að eiga það á hættu að það komi niður á mjólkurframleiðslunni. Það eru liðnar 7 vikur hjá mér og mig dauðlangar að fara að æfa, en ég er svo hrædd um að missa mjólkina eða að framleiðslan minnki. Einnig langar mig að vita hvort og hvenær er í lagi að fara að lyfta lóðum eftir fæðingu.

Bestu þakkir fyrir frábæra síðu!

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Mér líst rosalega vel á að þú skulir ætla að fara að hreyfa þig. Farðu bara hægt af stað.Það kemur ekki fram hvort þú ert vön líkamsrækt en einhvern veginn hljómar það samt þannig. Þér var óhætt að byrja fyrir nokkrum vikum síðan þannig að þú getur alveg verið róleg. Þú ert ekkert snemma í því. Þú spyrð hve mikla þjálfun þú mátt stunda. Það byggist á hverju þú ert vön en hún má vera ansi mikil. Þú skalt athuga það að afreksíþróttakonur bæði hér á landi og annarsstaðar hafa börn sín á brjósti meðfram geysimikilli þjálfun og keppni í hinum ýmsu íþróttagreinum. Þær eru að sjálfsögðu vanar mikilli þjálfun svo það eru ekki mikil viðbrigði fyrir líkamann. Því legg ég áherslu á að þú miðir við hverju þú ert vön.

Það enginn hætta á að þú missir mjólkina. Það hefur verið sýnt fram á að líkamsrækt hafi góð áhrif á mjólkurframleiðslu. Það skiptir samt máli að fara varlega af stað. Ef of geyst er farið af stað veldur það miklum viðbrigðum fyrir líkamann og það getur haft slæm áhrif um stund. En ef þú byrjar rólega og passar að fara ekki fram úr þér er allt í þessu fína. Svo eykurðu bara álagið hægt og rólega. Já, þú mátt líka lyfta. Í lyftingum er verið að þjálfa vöðva sem liggja umhverfis æðar sem liggja til brjóstsins þannig að það er mikilvægt að gera það af skynsemi og fara hægt af stað. En það er ekkert sem mælir gegn því.

Með ósk um að þú drífir þig af stað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. apríl 2005.