Spurt og svarað

16. júlí 2008

Liljupúðar og brjóstgjöf

Sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef, hann hefur hjálpað mér mikið á meðgöngunni og í brjóstgjöfinni.

Nú langar mig að spyrja að einu varðandi aukahluti í brjóstgjöfinni, en það er alltaf verið að mæla með hinu og þessu sem skapar mörgum konum svo bara seinnitíma vandamál eins og t.d mexíkanahatturinn sem er mjög umdeildur.

Núna er ég með eina rúmlega vikugamla á brjósti og gengur bara vel fyrir utan sár sem ég fékk í byrjun en eru núna að gróa þökk sé góðri ráðgjöf uppá landspítala. Ég fékk sýkingu í sárin en fékk meðferð við því ásamt því að læra að setja dóttir mína rétt á brjóstið. En það lekur töluvert úr brjóstunum á mér á nóttunni og ef það er farið að styttast í næstu gjöf og mig langar að vita hvort þið mælið með notkun liljupúðanna sem eiga að stoppa allan leka. En ég er frekar hikandi við að kaupa þessa púða ef þeir eru eins og hatturinn og skapar bara vandamál eins og soðna húð eða lélegt loftflæði um vörtuna. Og þessvegna langar mig að fá ykkar álit á þessum púðum áður en ég fjárfesti í þeim.

Vonandi getið þið hjálpað mér með þessa ákvörðun.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Það má kannski almennt segja að brjóstagjöf sé best án allra hjálpartækja. Liljupúðarnir hafa þó sýnt góða virkni gegn leka í brjóstum fyrir flestar konur. Ekki þó allar. Það verður að vera hægt að ýta vörtunni eitthvað inn og svo verða brjóstin að vera nokkuð vel holdfyllt. Margar konur tala um góða virkni gegn næturleka. Svo eru konur að tala um góða virkni undir þunnum fötum þegar mikið liggur við að ekki sjáist leki eins og t.d. íþróttakonur eða konur í fínum kjólum eða blússum. Það er mikilvægt að púðarnir séu notaðir á réttan hátt. Tímabundið á sólarhringnum og loftað um á milli. Og aldrei setja hann yfir sárar vörtur. Skynsamlegt væri fyrir þig með svona ungt barn að nota hann eins takmarkað og þú kemst af með.

Gangi þér vel.   

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.