Spurt og svarað

07. mars 2005

Lítil mjólk?

Sælar og takk fyrir góða og mjög fræðandi síðu!

Ég á 11 vikna son sem hefur verið eingöngu á brjósti frá fæðingu og þyngst mjög vel af henni. Brjóstin á mér hafa verið ansi vel bólgin af mjólk og þó nokkuð lekið úr þeim. Undanfarna daga þá finnst mér eins og það sé minni mjólk. Það er ekki að leka neitt úr þeim á nóttunni (venjulega var allt blautt) og mér finnst sonur minn meira pirraður en hann var og það er mikið tutl á honum séstaklega á vinstra brjóstinu sem hefur alltaf verið minna í. Jafnframt finnst mér hann þurfa að drekka oftar. Hann sefur samt mjög vel á nóttunni eða frá klukkan 21-8 (vaknar einu sinni til að drekka og stundum tvisvar). Getur verið að mjólkin sé að minnka að einhverjum orsökum ? Ég passa mig á því að drekka vel yfir daginn og svo hef ég fengið mér fennel te af og til. Getur verið að sonur minn sé ekki að fá nóg hjá mér? Hvaða ráð hafið þið til að auka mjólkina? Er ég kannski að hafa áhyggjur af engu?

.................................................................

Sæl og blessuð!

Það er auðvitað eitt af hlutverkum mæðra að hafa áhyggjur. Þess vegna hugsum við jú svona vel um börnin okkar. En sem svar við síðustu spurningunni þinni þá er það „já, þú ert að hafa áhyggjur út af  engu”.

Það er ekkert eðlilegt við það að hafa bólgin, lekandi brjóst 11 vikum eftir fæðingu. Þá eiga brjóstin að vera búin að aðlagast mjólkurframleiðslunni og ætti að vera vart merkjanlegt á þeim að þau séu mjólkandi. Yfirleitt gerist þetta 6-8 vikum eftir fæðingu. Þá finna margar konur fyrir breytingum á brjóstum sínum. þau hætta að leka, þau hætta að verða þanin þegar líður að næstu gjöf og sumum finnst þau mýkri og eins og „tóm”. Þetta eru sem sagt allt merki um góða aðlögun brjósta að núverandi hlutverki sínu. Það kemur magni eða gæðum mjólkurinnar ekkert við. Magnið sem framleiðist er fyrst og fremst í takt við það sem barnið tekur og sveiflast svolítið eftir þörfum þess á hverjum tíma. Ef barnið þitt er eitthvað pirraðra en venjulega þarftu að leita annarra orsaka en að það sé næringarskortur. Það er næstum það ólíklegasta sem gæti komið fyrir það.

Þú skalt líka athuga að þegar svo langt er liðið frá fæðingu þá er mjólkurlosunin komin undir stjórn barnsins fyrst og fremst. Brjóstin svara örvun barnsins umsvifalaust en það er erfiðara að örva þau á annan hátt. Það verður t.d erfiðara að mjólka þau eða kreista fram mjólk.

Með bestu óskum um að svona vel gangi áfram,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.