Lítil sem engin mjólk

16.01.2007

Góðan daginn! Mig sárvantar ráð.

Þannig er mál með vexti að ég mjólka lítið sem ekkert :( Ég á rúmlega vikugamalt barn sem ég hafði fyrstu 6 dagana bara á brjósti eða þar til kom í ljós í 5 daga skoðun að barnið hafði lést alltof mikið (hálft kíló). Eftir skoðunina fékk ég þær skipanir að gefa henni alltaf ábót eftir hverja gjöf. Viti menn þetta er allt annað barn! Hún svaf næstum ekkert í heila viku og grét stanslaust, barnið var bara svangt. En ég vil reyna koma brjóstagjöfinni í gang en það virðist ekki vera að ganga. Ég hefði haft samband við brjóstagjafaráðgjafann á spítalanum nema hvað hún er komin í veikindaleyfi um óákveðinn tíma, hvert get ég leitað ráða? Mér var sagt að hafa samband við heilsugæslustöðina mína, en eftir að hafa talað við þær þar finnst mér ég ekki fá nógu góðar leiðbeiningar. Þetta er fyrsta barnið mitt og ég þarf á einhvers konar leiðsögn að halda því ég vil alveg endilega geta haft barnið á brjósti. Það er búið að fylgjast með mér gefa barninu og gripið og sogið er rétt, barnið kyngir, en það er bara svo lítið sem það fær af mjólk.

Vonandi getið þið gefið mér ráð og jafnvel sagt mér hvert ég geti leitað.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.      

Það er mikilvægt að grípa strax til sinna ráða af því að líkast til áttu góða möguleika á að þetta gangi með brjóstagjöfina. Það eru sumar konur lengur að fara af stað með framleiðslu en aðrar (allt að 10 daga) og ef gripið er inn í ferlið á rangan hátt er hægt að eyðileggja brjóstagjöfina alveg. Þú þarft að fara í svokallað prógramm þ.e.a.s. fara til brjóstagjafaráðgjafa og láta vigta barnið fyrst bert og svo í fötum. Síðan leggurðu á brjóst og fylgst er með gjöfinni. Ef eitthvað er hægt að leiðrétta eða laga í gjöfinni er það gert. Svo er mjólkurvigtað til að vita hve mikið barnið fékk í þessari gjöf. Síðan færðu fyrirmæli um hversu oft þú átt að gefa, hversu lengi, hvernig á að skipta gjöfinni milli brjósta, hversu oft þú átt að gefa ábót og hve mikið. Ýmis önnur ráð eru gefin eftir því hvað hentar ykkur. Þú þarft líka að skrá á sérstakt blað hve oft barnið pissar og kúkar. Þessum fyrirmælum er fylgt í fáa daga og þá þarf að fara aftur til brjóstagjafaráðgjafans og vigta til að vita hvort aðgerðirnar eru að skila sér. Eftir því hver niðurstaðan er er fyrirmælunum breytt. Svona er haldið áfram þar til bestu hugsanlegu niðurstöðu er náð. Brjóstagjafaráðgjafi Landspítalans getur tekið konur í prógramm. Hún er við á þriðjudögum og fimmtudögum nú um þessar mundir. Heilsugæslan hefur ekki verið með svona fastmótað prógramm í gangi en ætti þó alveg að geta það. Það eru hins vegar ekki allir hjúkrunarfræðingar heilsugæslunnar sem hafa trú á brjóstagjöf sem fullnægjandi næringu því miður þannig að það getur valdið erfiðleikum ef þú hittir á eina af þessum fáu. Ég vona bara að þetta takist hjá þér og endilega ekki gefast upp baráttulaust.

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. janúar 2007.