Spurt og svarað

19. október 2007

Lítill hnúður í brjósti

Sælar.

Er búin að vera með barn á brjósti í rúma 8 mánuði en síðustu 2 mánuði hafa gjafirnar farið minnkandi. Núna er barnið virkilega að drekka 2 gjafir á dag og mér finnst það ekki vilja meira. En í morgun vaknaði ég með verk í hægra brjóstinu og fór að þreifa á því vegna þess að  ég hafði aldrei fundið slíkan verk. Á brjóstinu rétt fyrir ofan geirvörtu fann ég lítinn hnúð eða frekar eins og lítið ber, svona þykkildi. Getur verið að það sé brjóstastífla eða er hugsanlegt að þetta gæti verið krabbamein? Er alveg skíthrædd og veit ekkert hvert ég ætti að snúa mér og vona að þið getið svarað mér og gefið mér ráð.

Kveðja, Begga.


Sæl og blessuð Begga.

Það er reyndar ekki svo óalgengt að finna ýmsa hnúta og þykkildi í brjóstum á meðan brjóstagjafatími stendur yfir. Oft hverfa þeir af sjálfu sér en ekki alltaf. Langoftast eru þetta saklaus fyrirbæri og krabbamein í brjósti á brjóstagjafatíma er afar sjaldgæft. Brjóstastífla lýsir sér ekki með svo litlum hnút. Ég skil vel að þú sért óróleg og bendi þér því á að leita til Leitarstöðvarinnar í Skógarhlíð. Þar eru til staðar fullkomin tæki til að skoða svona hnúta og komast að því hvað þeir eru. Hringdu bara þangað útskýrðu vandamálið og fáðu upplýsingar.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.