Litlar geirvörtur, 16 ára

25.07.2006

Hæ!

Ég er 16 ára ég er komin með 8 vikur á leið. Ég hef svo miklar áhyggjur því ég er ekki með neinar geirvörtur kannski smá, en þær eru ekki komnar út eins og á mörgum stelpum a mínum aldri. Eiga þær eftir að koma út Ég fer varla að gefa barninu mínu brjóst a fæðingadeildinni með ekki neinar geirvörtur. Hef miklar áhyggjur.

Kveðja, 16 ára ólétt.


Sæl og blessuð!

Brjóstin og geirvörturnar ljúka þroska sínum á meðgöngunni. Það er alveg sama hvað maður er gamall. Það verður oftast einhver stækkun, en þú þarft ekki að búast við neinu stórkostlegu. Mesti hluti þroskans er búinn. Þú átt að geta gert ráð fyrir að geta haft barnið þitt á brjósti eins og flestallar konur. Hitt er svo annað mál að stærð geirvarta eða vörtubauga skiptir afskaplega litlu máli í brjóstagjöf. Framleiðsla mjólkurinnar fer fram innan í brjóstunum og er stjórnað af heilanum. Vörturnar eru í raun bara útfærslugangur. Börnin þurfa bara að ná taki á fremsta hluta brjóstanna til að ná út mjólkinni. Þau læra á geirvörtur mæðra sinna hvernig svo sem þær eru í laginu. Ef þú hefur svona miklar áhyggjur ráðlegg ég þér eindregið að fá skoðun hjá ljósmóður, lækni eða brjóstagjafaráðgjafa og kannski smá spjall til að undirbúa þig fyrir brjóstagjöfina.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. júlí 2006.